Vilborg Auður Ísleifsdóttir Bickel Bickel
Vilborg Auður Ísleifsdóttir Bickel Bickel
Eftir dr. Vilborgu Auði Ísleifsdóttur Bickel: "Eins og margir aðrir Íslendingar er ég nokkuð toginleit yfir þróun okkar ástkæra ylhýra máls."

Heimili og skólar gera sitt besta, en engilsaxneskt áreiti er mikið. Háskóli Íslands er eitt helsta vígi tungunnar – eða hvað?

Mig langar til að segja tvær stuttar sögur, sem ég held að eigi erindi.

Fyrir nokkrum árum bað vinkona mín, sem kennir fornleifafræði við HÍ, mig að spjalla við nemendur sína um heimildir 16. aldar um klaustur. Ég tók vel í þetta, en þá kom babb í bátinn. Háskóli Íslands er í alþjóðlegri samkeppni um stúdenta og kennsla í fornleifafræði fer fram á ensku. Þetta var þeim mun bagalegra, þar sem stuðningsheimildir um þetta eru efni á íslensku – íslensku 15. og 16. aldar. Nemendur í áfanganum voru tíu og af þeim voru tveir erlendir. Hvernig þeir áttu að skilja þessa fróðlegu texta var mér hulin ráðgáta – sem og hvernig hægt er að standa að kennslu í þessum fræðum án þess að geta lesið íslenska texta. Í þessu fagi var íslenskan sýnilega á undanhaldi.

Hin sagan er sú að ég var beðin um að þýða tæknilegan texta af þýsku yfir á íslensku. Textinn var í bæklingi, sem kom að notum við vinnu á bifreiðaverkstæðum. Verkefnið var nokkuð snúið, en tókst engu að síður. Forstjóri fyrirtækisins, sem gekkst fyrir að gefa út þennan bækling á íslensku, hringdi í mig og þakkaði mér fyrir þetta og sagði við það tilefni eftirminnilega setningu: „Það var gott að þú gast komið þessu yfir á góða íslensku, því strákarnir á verkstæðunum skilja ekki annað mál.“

Draumar ársins 2007 rættust ekki. Ísland verður aldrei fjármálamiðstöð á heimsmælikvarða. Til þess erum við of fá og hagkerfið of lítið. Háskóli Íslands verður af sömu ástæðum aldrei í hópi 100 bestu háskóla í heimi. Er þá ekki of mikið að fórna íslenskunni sem kennslumáli í húmanískum fræðum í þessu virðulega vígi tungu og mennta? Eru menn þarna ekki að eltast við alþjóðlega tálsýn?

Það er ekki rétt að skilja strákana á verkstæðunum eina eftir með að gera kröfu til að íslenskan sé aðlöguð að tæknivæddum heimi. Íslenskir skattgreiðendur, sem standa undir rekstri háskólans, eiga rétt á því að stofnunin sinni af samviskusemi tungumálinu, sem er enn sameign okkar allra, hvort sem við vinnum á skrifstofum, verkstæðum, togurum eða traktorum. Og gott er að hafa í huga hið fornkveðna: Hollur er heimafenginn baggi.

Höfundur er sagnfræðingur.

Höf.: dr. Vilborgu Auði Ísleifsdóttur Bickel