— AFP
Margir af helstu þjóðarleiðtogum heims minntust þess í gær að sjötíu ár eru nú liðin frá landgöngu bandamanna í Normandí þegar um 160.

Margir af helstu þjóðarleiðtogum heims minntust þess í gær að sjötíu ár eru nú liðin frá landgöngu bandamanna í Normandí þegar um 160.000 bandarískir, breskir og kanadískir hermenn gengu þar á land gegnt víggirtum fallbyssu- og vélbyssuhreiðrum Þjóðverja. Auk þjóðarleiðtoganna voru nokkur hundruð fyrrverandi hermenn, sem þátt tóku í innrásinni, viðstaddir minningarathöfnina í Ouistreham, sem er ein af þeim fimm ströndum þar sem hersveitir bandamanna stigu á land hinn 6. júní árið 1944.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði m.a. í ræðu sinni að fórnfýsi og hugrekki þeirra sem börðust í Normandí hafi rofið skarð í vegg Hitlers og tryggt tíma lýðræðis og frelsis. François Hollande, forseti Frakklands, tók einnig til máls á athöfninni og sagði hann Frakkland standa í ævarandi skuld við Bandaríkin vegna þátttöku bandarískra hersveita í að frelsa Frakkland úr klóm Þriðja ríkisins.

Innrásarfloti bandamanna var sá stærsti í hernaðarsögu veraldar, en hann samanstóð af um 160.000 hermönnum sem réðust til inngöngu bæði úr lofti og á legi, 500 herskipum, 3.000 landgönguprömmum og 2.500 aðstoðarskipum. Áætlað er að um 2.500 hermenn bandamanna hafi fallið þennan örlagaríka dag í Frakklandi.