Í síðustu viku var gátan þessi eftir Pál í Hlíð: Hann var pabba orfi á, oní jörðu rekinn sá. Neðst á bátnum aftast er, oft á göngu sárna fer. Hér kemur lausn Hörpu í Hjarðarfelli: Ég tók í hæla tvo á orfi, tjaldhælana rak á kaf.

Í síðustu viku var gátan þessi eftir Pál í Hlíð:

Hann var pabba orfi á,

oní jörðu rekinn sá.

Neðst á bátnum aftast er,

oft á göngu sárna fer.

Hér kemur lausn Hörpu í Hjarðarfelli:

Ég tók í hæla tvo á orfi,

tjaldhælana rak á kaf.

Á siglutrésins hæl ég horfi.

Hælsæri fæ göngu af.

Helgi R. Einarsson leysti gátuna með þeirri athugasemd að eftirfarandi vísa hefði orðið til yfir kosningasjónvarpinu:

Hællinn er á orfi´ með ljá,

oft má hæl í jörðu sjá,

hæll er kjölnum aftast á,

ýmsa hæla göngur hrjá.

Og enn kemur hér gáta eftir Pál í Hlíð:

Ég giftur henni Gunnu var,

get svo verið lélegt far,

og líka mælieining er,

oft ég skjólið veiti þér.

Í skjólinu að sitja er gott,

og súpa úr mér.

Stefán Vilhjálmsson segir á Leirnum að stefnan sé tekin til æskustöðva um hvítasunnuna:

Toga í mig fjörðinn finn,

til ferðar senn mig gyrði,

heldur sig nú hugurinn

hálfur í Mjóafirði.

Það fór svo fyrir mér sem oftar þegar ég blaða í ljóðum og vísum Bjarna frá Gröf að geta ekki hætt. „Guð í sjónvarpinu“ kallar hann þessa:

Í útvarpinu atómskáldin ekki þykja góð,

og ýmsir gjöra þeirra hlut nú smáan.

Þó Drottinn kæmi sjálfur og læsi þeirra ljóð

líklega myndu fáir hlusta á ‘ann

en gaman væri í sjónvarpinu að sjá ‘ann.

Ævidansinn:

Allt í gegnum aldaraðir

ekki breytast heimsins kynni,

ýmist hryggir eða glaðir

dansa menn um dauðans traðir.

Drottinn stjórnar hljómsveitinni.

Þessi staka skýrir sig sjálf:

Kosningarnar koma senn,

kurteisina bæta,

nú heilsa allir heldri menn

hverjum sem þeir mæta.

Á þingpöllum:

Ég þingmenn háa heyrði þar

halda ræður dagsins,

ég held þeir séu hornsteinar

í heimsku þjóðfélagsins.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is