Gengið var frá samkomulagi um meirihluta í þremur sveitarstjórnum, í Sandgerði og Grindavík í gær og Skagafirði í fyrrakvöld. Þá eru meirihlutaviðræður í Kópavogi og á Akureyri, Reykjanesbæ og Hafnarfirði sagðar vera langt komnar.

Gengið var frá samkomulagi um meirihluta í þremur sveitarstjórnum, í Sandgerði og Grindavík í gær og Skagafirði í fyrrakvöld. Þá eru meirihlutaviðræður í Kópavogi og á Akureyri, Reykjanesbæ og Hafnarfirði sagðar vera langt komnar.

Samfylkingin og óháðir borgarar og Sjálfstæðismenn og óháðir hafa náð samkomulagi um samstarf í meirihluta bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar.

Sjálfstæðismenn og Listi Grindvíkinga hafa náð samkomulagi um myndun nýs meirihluta í bæjarstjórn Grindavíkur. Samstarfssamningur framboðanna verður undirritaður eftir helgi samkvæmt fréttavef Víkurfrétta.

Gengið hefur verið frá meirihlutasamstarfi Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Frá þessu er greint á fréttavefnum Feyki.

Þá eru viðræður sjálfstæðismanna og Bjartrar framtíðar sagðar vera á lokametrunum í Kópavogi og stefnt er að því að klára viðræður um helgina. Eins eru meirihlutaviðræður L-lista, Samfylkingar og Framsóknar langt á veg komnar á Akureyri og búist er við því að samkomulag muni nást eftir helgi.

Stutt er í að samkomulag náist á milli Frjáls afls, Samfylkingar og Beinnar leiðar í Reykjanesbæ.

Að sögn Guðlaugar Kristjánsdóttur, bæjarfulltrúa hjá Bjartri framtíð í Hafnarfirði, ganga viðræður við Sjálfstæðisflokk vel og segir hún tíðinda að vænta í dag.

Óska eftir greinargerð

Sjálfstæðismenn í Reykjavík hafa óskað eftir greinargerð um framkvæmd borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík. Ástæðan er sú að endanleg niðurstaða var ekki birt fyrr en fjórum tímum eftir að talningu lauk þar sem skekkja fannst upp á fjörutíu atkvæði.

Endurtalningu atkvæða í Norðurþingi að beiðni Framsóknarmanna lauk í gær án þess að það hafi haft áhrif á fulltrúafjölda flokka.