Mikið er í ám núna vegna vorleysinga á hálendinu, sérstaklega á Norðausturlandi og Austurlandi. Þá mældist mikið í Markarfljóti og Hólmsá, sitt hvorum megin við Mýrdalsjökul, á fimmtudaginn.

Mikið er í ám núna vegna vorleysinga á hálendinu, sérstaklega á Norðausturlandi og Austurlandi. Þá mældist mikið í Markarfljóti og Hólmsá, sitt hvorum megin við Mýrdalsjökul, á fimmtudaginn.

Að sögn Gunnars Sigurðssonar vatnamælingamanns hjá Veðurstofu Íslands eru miklar vorleysingar þar sem enn er snjór uppi á fjöllum. „Ég held að á Vesturlandi sé snjórinn eiginlega búinn, en það er enn snjór á Vestfjörðum. Á Norðurlandi vestra, eins og í Húnavatnssýslu, er farið að minnka í ánum því snjórinn er að minnka. Í Skjálfandafljóti og þar fyrir austan er ennþá mikill snjór og mikið rennsli og verður mikið um helgina.“

Minna en í fyrra

Gunnar segir að tölverðar leysingar séu búnar að vera síðustu tíu daga eða svo. Hlýindin um helgina auki svo rennslið. „Þetta er samt minna rennsli en í fyrra. Þá snögghlýnaði um svipað leyti eftir kulda svo það var allt á bólakafi í snjó. Nú hefur verið jafnhlýtt vor og snjórinn farinn að minnka sums staðar.“

Vorflóðin geta staðið fram yfir miðjan júní í þeim ám sem sækja lengst upp á hálendið.

Rennur vel í lónin

Landsvirkjun finnur vel fyrir vorleysingum á hálendinu þessa dagana sem skila sér í auknu innrennsli í miðlunarlónin. Spár gera ráð fyrir áframhaldandi auknu innrennsli en langt er þó í að lónin fyllist, samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun.

Vegna lágrar vatnsstöðu í vor eftir kaldan vetur er ekki víst að lónin muni öll fyllast. Líkur eru þó mestar á að Hálslón fyllist en hækka fór í lóninu í lok maí og stendur það nú í 572,5 m y.s.

Vatnshæð Þórisvatns hefur farið hækkandi og stendur nú í 564,34 m y.s. Hinn 3. apríl fór vatnshæð Þórisvatns í lægstu stöðu sem mælst hefur frá upphafi, 560,31 m y.s. og var það um 11 metrum undir meðaltali vatnshæðar vatnsins á þeim tíma árs.

Vatnshæð Blöndulóns stendur nú í 472 m y.s. Lægst fór staðan í 466,9 m y.s. hinn 5. apríl, sem var um 5 metrum undir meðalhæð á þeim árstíma.

ingveldur@mbl.is