Hestamenn Riðið út í sól en Húnaflóaþokan er ekki fjarri. Þessir krakkar eru á vegum hestaleigunnar Galsa.
Hestamenn Riðið út í sól en Húnaflóaþokan er ekki fjarri. Þessir krakkar eru á vegum hestaleigunnar Galsa. — Morgunblaðið/Jón Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr Bæjarlíinu Jón Sigurðsson Blönduós Vorið hefur verið okkur hér við botn Húnafjarðar einkar hagfellt og náttúran sprungið út í öllu sínu veldi. Grasið sprettur, trén laufgast og ungum fugla í görðum, móum og á jökulánni Blöndu fjölgar dag frá degi.

Úr Bæjarlíinu

Jón Sigurðsson

Blönduós

Vorið hefur verið okkur hér við botn Húnafjarðar einkar hagfellt og náttúran sprungið út í öllu sínu veldi. Grasið sprettur, trén laufgast og ungum fugla í görðum, móum og á jökulánni Blöndu fjölgar dag frá degi. Sauðburður gekk vel og er helst að elstu menn muni aðra jafn góða eða betri sauðburðartíð.

Ferðamálafélag Austur-Húnavatnssýslu gaf út á dögunum veglegan ferðabækling um athafnasvæði sitt. Menn eru sammála um að vel hafi tekist til um útgáfu hans; hann er ríkulega myndskreyttur og er þar að finna ítarlegar upplýsingar um náttúruna, afþreyingu og menningarviðburði í héraðinu. Bæklinginn má nálgast á helstu samkomustöðum í héraði og upplýsingastöðvum ferðamanna.

Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi hóf sumarstarfsemi sína með opnun sýningar Þórdísar Jónsdóttur frá Akureyri, sem hún nefnir „Sporin mín“.

Sérsýning hefur verið opnuð í safninu á hverju ári frá 2003 þegar nýtt hús safnsins var tekið í notkun. Sýningarnar hafa mælst afar vel fyrir, eru mjög ólíkar frá ári til árs og gefa innsýn í textílflóru íslenskra textíllistamanna.

Hafíssetrið í Hillebrandtshúsi, einu elsta timburhúsi húsi landsins, hefur verið opnað, sem og Laxasetur Íslands. Eins og nöfnin gefa til kynna er þarna að finna fróðlegar upplýsingar um hafísinn og allt sem honum tengist auk lax- og silungsveiða, en héraðið er ríkt af gjöfulum veiðiám og vötnum.

Talandi um veiðar er vert að geta þess að laxveiðar hófust á neðsta svæðinu Blöndu sl. fimmtudag og höfðu veiðst fimm laxar á hádegi í gær, allir á bilinu 10-12 pund. Hinn 20. júní hefjast síðan veiðar á öllu veiðisvæðinu og víðar í héraðinu.

Í innanríkisráðuneytinu er gert ráð fyrir að aðalskrifstofa í umdæmi sýslumannsins á Norðurlandi vestra verði á Blönduósi. Gert er ráð fyrir að sýsluskrifstofa verði á Sauðárkróki. Aðalskrifstofa sýslumanns er aðsetur hans og verður þar veitt öll sú þjónusta sem sýslumönnum ber að veita samkvæmt lögum, reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. Samkvæmt þessum hugmyndum munu Húnvetningar hýsa sýslumanninn í sameinuðu lögregluumdæmi á Norðvesturlandi.

Að lokum er rétt að geta þess að heiðursgæsin SLN sem merkt var við sýsluskrifstofuna í júlí árið 2000 hefur ekki sést í vor og er það í fyrsta sinn frá því hún var merkt að ekkert sést til hennar á Blönduósi. Margir óttast um örlög hennar og má merkja söknuð hjá nokkrum.