Friðrik Friðriksson
Friðrik Friðriksson
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Skjásins, segir að rangfærslur séu í yfirlýsingu sem Ríkisútvarpið sendi frá sé í gær í kjölfar fréttar í Morgunblaðinu í gær þar sem Friðrik gagnrýndi beiðni RÚV og 365 miðla til norrænna sjónvarpsstöðva að þær myndu loka fyrir útsendingar af leikjum á HM í knattspyrnu sem nást á Skjá Heimi og Fjölvarpi Stöðvar 2. Í yfirlýsingu RÚV kemur m.a. fram að fyrirkomulagið í ár sé sambærilegt við það sem tíðkast hefur áður, t.a.m. á HM 2010 sem RÚV hafði sýningaréttinn á og áframseldi 18 leiki til 365. Þá segir í yfirlýsingunni að það komi á óvart að Skjárinn hafi auglýst að leikirnir myndu verða á dagskrá á erlendu stöðvunum í ljósi þess að RÚV hefur sýningarrétt af leikjunum hér á landi. „Það kom stuttur moli um þetta á bls. 60 í Fréttatímanum frá síðustu viku um að norrænu stöðirnar verða með leikina í boði. Þá kemur þetta fram á heimasíðu okkar á síðu 2. Þetta kallar RÚV auglýsingaherferð. Það er ekkert nema útúrsnúningar. En það sem er ennþá óþægilegra fyrir RÚV er að þeir segja að fyrirkomulagið sé það sama og árið 2010. Undirliggjandi er sú söguskýring að lokað hafi verið fyrir útsendingar á norrænu stöðvunum þá, en þetta er ekki rétt,“ segir Friðrik.

Hann segir að í eina skiptið þar sem lokað var fyrir útsendingarnar hafi verið árið 2002 þegar HM fór fram í Japan og Suður-Kóreu en þá var Stöð 2 með sýningarréttinn. Hann hvetur RÚV og 365 miðla til að endurskoða afstöðu sína. „Að þessi fyrirtæki geri það sem er rétt í málinu og dragi til baka beiðni um lokanir,“ segir Friðrik.

Þá kom fram í yfirlýsingu RÚV að Skjánum hafi verið boðið að kaupa sýningarrétt af þeim 18 leikjum sem verða í sýningu á Stöð 2. „Það kemur málinu ekkert við og RÚV hefur ótvírætt rétt á því að bjóða leikina út. Svo geta menn haft skoðun á því hvort sú ákvörðun hafi verið rétt,“ segir Friðrik.