Sigurbjörg Guðmundsdóttir fæddist að Króki í Ásahreppi 25. apríl 1926. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 24. maí 2014.

Útför Sigurbjargar var gerð frá Bústaðakirkju 30. maí 2014.

Þú gengin ert hugglöð á frelsarans fund

og fagnar með útvaldra skara,

þar gleðin er eilíf, þar grær sérhver und.

Hve gott og sælt við hinn hinsta blund

í útbreiddan faðm Guðs að fara.

Nú kveðja þig vinir með klökkva og þrá

því komin er skilnaðarstundin.

Hve indælt það verður þig aftur að sjá

í alsælu og fögnuði himnum á,

er sofnum vér síðasta blundinn.

(Hugrún)

Með tárvot augu og trega í hjarta kveð ég kæra vinkonu og móðursystur mína hana Sigurbjörgu. Bagga, eins og hún var alltaf kölluð, var ein af þeim manneskjum sem alltaf var gott að koma til og þær eru margar ánægjustundirnar sem ég hef átt í návist hennar. Bagga hafði ákveðnar skoðanir á lífinu og oft var glatt á hjalla þegar málin voru rædd. Sem barn og unglingur átti ég því láni að fagna að dvelja langdvölum á heimili frænku minnar í Reykjavík. Frá fyrstu stundu var mér tekið þar sem einu af hennar börnum og naut ég umhyggju hennar og leiðsagnar í lífinu alla tíð síðan. Á heimili Böggu var alltaf gestkvæmt og má segja að allra leiðir hafi legið á Bústaðaveginn, þar sem þrátt fyrir mannmargt heimili var alltaf pláss fyrir fleiri. Það var sama hvað Bagga frænka hafði mikið að gera, hún hafði alltaf tíma fyrir aðra og þeir eru ófáir sem hún hefur rétt hjálparhönd um ævina. Bagga var létt í lund og hláturinn var aldrei langt undan þegar hún var annars vegar, hún naut þess að lifa og trúði á Guð og það góða í lífinu. Það kom ekki síst í ljós nú á síðustu mánuðum þar sem hún í veikindum sínum æðraðist ekki heldur gladdist yfir hverjum þeim degi sem hún fékk að eiga með sínum nánustu. Ég og fjölskylda mín vottum Ása, börnum, tengdabörnum og barnabörnum innilegustu samúð. Blessuð sé minningin um góðan vin, hafðu þökk fyrir allt. Hvíldu í friði elsku Bagga. Þín frænka,

Elín Þórðardóttir.