Kristján Eiríksson orti í aðdraganda kosninganna nokkrar vísur undir sauðshætti og hallaðist þar að öllum helstu flokkum.

Kristján Eiríksson orti í aðdraganda kosninganna nokkrar vísur undir sauðshætti og hallaðist þar að öllum helstu flokkum. Um B-flokkinn sagði hann:

Þótt framsókn missi fé og hold

finn ég mitt skjólið þarna

„meðan gróa grös í mold

og glóir nokkur stjarna“.

En sauðsháttarvísan um D-flokkinn er svona:

Og íhaldið kýs ég, elskan mín,

ó, hve það fagurt syngur:

„Hani, krummi, hundur, svín,

hestur, mús, tittlingur.“

Ég gaf Kristjáni „lík“ fyrir þetta á sveitasímanum. Í öðru samhengi var ég svo eitthvað að tala um „lík“ við Gyrði Elíasson. Hann skrifaði mér stuttu seinna og spurði: „Er það ekki ný tegund af líkþrá, sem menn eru haldnir á Fjasbókinni?“ Svari nú þeir sem telja líkin sín.

Meira um lík (úr morðfrétt í vefmiðli): „Lík fullorðnu einstaklinganna tilheyrðu hjónunum Darrin og Kimberly Campell.“

Ótrúlegt afrek hefur Jóhann Sigurðsson bókaútgefandi unnið með því að láta þýða Íslendingasögurnar á ensku, þýsku og nú síðast Norðurlandamál. Það á að reisa þessum manni stóran minnisvarða.

Kunningi í heita pottinum sagði að Margrét Danadrottning hefði í formála að dönsku útgáfunni getið Gunnars á Hlíðarenda og sagt að hann hefði „dottið“ af baki við Markarfljót. Í Njálu segir að Gunnar „stökk úr söðlinum“ þegar hestur hans „drap fæti“. Óneitanlega er munur á sögnunum stökkva og detta ( falde ). Kunninginn í pottinum lét að því liggja að Danadrottning hefði með orðalagi sínu viljað stríða forseta vorum. Pottverjar hlógu. Ekki er að spyrja að húmor landans.

En ótrúlegt verk er Njála. Getum við ekki gert hana að metsölubók líkt og úrval þjóðsagna Jóns Árnasonar varð með útgáfu feðganna Benedikts Jóhannessonar og Jóhannesar Benediktssonar?

Í Njálu rakst ég á orðið eftirmál í ræðu Flosa. Þar var það í eintölu: „Skuluð þér það nú og hugsa, Sigfússynir og aðrir vorir menn, að svo mikið eftirmál mun verða um brennu þessa að margan mann mun það gera höfuðlausan, en sumir munu ganga frá öllu fénu.“ Nú er eftirmál yfirleitt haft í fleirölu: „Það urðu engin eftirmál.“ En sumir rugla þessu orði ( eftirmál ) saman við orðið eftirmáli (texti aftan við meginmál bókar) og segja: „Það urðu engir eftirmálar.“ Þetta gerist. Við lendum öll í þessu og þvílíku.

Dæmum ekki. Lítum á textabrot úr minningargrein: „Hann naut alla tíð angans af margbreytileika heimsins.“ Er ekki angan (ilmur) kvenkynsorð? Jú, reyndar, en til er forn karlkynsorðmynd, angi , í merkingunni ilmur (eignarfall eintölu með greini: angans ). Það er semsagt ekkert athugavert við textabrotið úr minningargreininni. En ef við hefðum endilega viljað setja hér kvenkynsorðið angan (með greininum) hefðum við þurft að skrifa: „Hann naut anganarinnar af...“ o.s.frv. Það hefði auðvitað ekki gengið.

„Látum þetta gott af veðri,“ eins og fréttamaður í gervi veðurfræðings komst að orði á einkasjónvarpsstöð.

Baldur Hafstað bhafstad@hi.is

Höf.: Baldur Hafstað bhafstad@hi.is