Pilturinn fannst í flugvél KLM.
Pilturinn fannst í flugvél KLM.
Lögreglan í Hollandi staðfesti í gær að lík sem fannst í undirvagni farþegaþotu hollenska flugfélagsins KLM í Amsterdam sé af 17 ára gömlum norskum pilti.

Lögreglan í Hollandi staðfesti í gær að lík sem fannst í undirvagni farþegaþotu hollenska flugfélagsins KLM í Amsterdam sé af 17 ára gömlum norskum pilti. Voru það flugvallarstarfsmenn sem fundu lík piltsins, í rýminu sem hefur að geyma lendingarbúnað vélarinnar meðan á flugi stendur, skömmu eftir lendingu á Schiphol-flugvelli síðastliðinn fimmtudag. Hafði vélinni verið flogið þangað frá Sandefjord í Noregi.

Hafði áður látið sig hverfa

Greint er frá því í erlendum miðlum að piltsins hafi verið saknað frá því á miðvikudag. Að sögn móður hans glímdi pilturinn við einhverfu og hafði hann áður týnst í september árið 2012 en eftir um tólf klukkustunda leit fannst hann heill á húfi.

„Við bjuggumst ekki við því að hann myndi týnast aftur, allt hafði gengið vel hjá honum upp á síðkastið,“ er haft eftir móður piltsins í erlendum miðlum. Hún segist aðspurð ekki vita hvers vegna hann hefði komið sér fyrir í hjólarými farþegaþotunnar. Líkið verður flutt heim til Noregs.

Athygli rannsakenda beinist nú að öryggismálum flugvallarins og þá einkum hvernig piltinum tókst að komast óséður fram hjá öryggisvörðum og inn í flugvélina. Búið er að fara yfir upptökur úr öryggismyndavélum á svæðinu og sýna þær mannaferðir í kringum þotuna. Ekki hefur þó verið gefið upp hvort myndirnar sýni ferðir hins látna.

16 ára lifði af fimm tíma flug

Fyrr á þessu ári lifði sextán ára gamall piltur af fimm klukkustunda flugferð þar sem hann faldi sig við hjólabúnað flugvélar á leið frá Kaliforníu til Hawaii. Sá hafði strokið að heiman, stokkið yfir girðingu og falið sig í vélinni. Það var ekki fyrr en vélin var lent og pilturinn hóf að ráfa um flugvallarsvæðið sem einhver varð hans var.

Bandaríska alríkislögreglan FBI segir drenginn hafa verið án meðvitundar vegna súrefnisskorts mestan hluta ferðarinnar og að vélinni hafi verið flogið í 11.600 metra hæð þar sem um 62 gráðu frost er. Í skýrslu Flugmálastofnunar Bandaríkjanna segir að um 24% líkur séu á að lifa slíka þrekraun af.