Ummæli píratans benda til að fjárhagsstaða borgarinnar sé veikari en viðurkennt var

Hinn fallni meirihluti í Reykjavík hefur setið frá kosningum og rætt við væntanlega samstarfsflokka, Vinstri græna og Pírata, um stjórnarsamstarf. Endurunninn brandari um „leynifundi“ hefur verið það helsta sem borgarbúar hafa frétt af fundum þessa nýja fjórflokks.

Svo gerðist það í gær að fulltrúi Pírata, Halldór Auðar Svansson, upplýsti að hann væri bjartsýnn á árangur viðræðnanna en að flóknasta viðfangsefnið væri fjármálin, „aðallega hlutirnir sem kosta,“ og „sérstaklega miðað við fjárhagsstöðuna.“

Þessi orð Halldórs eru umhugsunarverð af tveimur ástæðum. Eftir kosningar hafa flokkarnir, sem reyna nú að mynda vinstri meirihluta í borginni, verið hvattir til að tryggja að hann verði nógu langt til vinstri. Þess vegna hljóta kjósendur, sem jafnframt eru skattgreiðendur, að velta stöðu sinni fyrir sér þegar þeir sjá að fjórir vinstri flokkar sitja dögum saman yfir útgjaldahlið borgarinnar. Sú yfirseta er ekki í þeim tilgangi að skera niður útgjöld heldur til að finna út hvaða „svigrúm“ er til að standa undir útgjaldaloforðum fjórflokksins nýja. Skattgreiðendur geta treyst því að engum tíma er varið í að ræða skattalækkanir, enda enginn vilji á meðal þessara væntanlegu samstarfsflokka að finna svigrúm til að létta skattbyrði borgarbúa.

Hitt sem er umhugsunarvert eru þau orð Halldórs Auðar Svanssonar að útgjaldahliðin sé flókið viðfangsefni, „sérstaklega miðað við fjárhagsstöðuna.“ Þess varð ekki vart í kosningabaráttunni að meirihlutinn viðurkenndi að borgin ætti í fjárhagsvanda. Þvert á móti gerði hann mikið úr afrekum sínum á sviði fjármála borgarinnar. Getur verið að þar hafi eitthvað verið ofsagt?