Þorvaldur Jóhannsson
Þorvaldur Jóhannsson
Frá Þorvaldi Jóhannssyni: "Um leið og ég, harður stuðningsmaður Derby County, óska QPR velfarnaðar í úrvalsdeildinni ensku, er ég enn hugsi yfir því hvað knattspyrnan getur stundum verið grimm og ósanngjörn."

Um leið og ég, harður stuðningsmaður Derby County, óska QPR velfarnaðar í úrvalsdeildinni ensku, er ég enn hugsi yfir því hvað knattspyrnan getur stundum verið grimm og ósanngjörn. Eins og ágætur þjálfari Derby, Steve McClaren, sagði eftir leikinn: „Þetta var grimmasti leikur sögunnar.“ En ekki meira um það í bili, svona er knattspyrnan. Ungur leikmaður, Charles Frederick, „Charlie George“, vakti athygli mína á árunum kringum 1968-69, þá Arsenal-leikmaður. Ég hreifst svo af áræði og snilld þessa drengs að þegar hann fór yfir til Derby County fylgdi ég honum sem stuðningsmaður. Síðan hef ég haldið með þessum frábæra klúbbi, „Hrútunum“, og fylgt þeim í gegnum sætt og súrt alla tíð síðan. Ég beið nokkuð lengi eftir því að sjá leik með klúbbnum mínum, Charlie karlinn var löngu hættur þar þegar að því kom. Einn afastrákurinn minn er harður Manchester United (MUN)-aðdáandi og ég fór með hann á leik til Manchester. Leikurinn var á „Gömlu tröð“, heimavelli MUN. MUN-menn voru þegar orðnir Englandsmeistarar er þessi leikur fór fram. Hann var í lokaumferðinni 5. maí 2001 við Derby County sem var í fallhættu. Ekki skemmdi það fyrir að Skagamaðurinn Þórður Guðjónsson kom inn á í seinni hálfleik sem leikmaður Derby. Mínir menn stóðu sig, vel skipulagðir og gáfu hvergi eftir og unnu Englandsmeistarana á þeirra heimavelli 1-0. Við félagarnir sátum aftan við mark MUN, frekar ofarlega. Ég gleymi ekki augnablikinu þegar Malcholm Christie negldi boltann í netmöskvana svo vældi vel í. Barthez, markvörður MUN, leit ekki vel út. Hann átti ekki möguleika. Markið kom seint í leiknum. Ég áttaði mig ekki strax á því þegar MUN-fylgjendurnir fóru að syngja saman hátt í kór „City down - City down - City down“. Strákurinn hnippti í mig og sagði, flott afi, City er fallið en Derby er áfram í úrvalsdeildinni. Þessi sigur á Englandsmeisturunum á þeirra heimavelli tryggði Derby áfram sæti í úrvalsdeildinni en nágrannarnir, Manshester City, féllu niður. Að leikslokum horfðum við félagarnir á er meistararnir voru krýndir og Sir Ferguson, þjálfari þeirra, tók þátt í athöfninni með tvö afabörnin sín sér við hlið. Mögnuð stund og meiriháttar show. Mér er minnisstætt eftir leikinn er leikmenn Derby keyrðu burt af svæðinu á rútu sinni, þá stóðu stuðningsmenn MUN heiðursvörð meðfram akstursleiðinni og klöppuðu og veifuðu ákaft og þökkuðu „Hrútunum“ leikinn. Mér fannst á þeirri stundu að þeir gætu verið að veifa til mín. Manshester-borg var jú sannarlega þeirra.

ÞORVALDUR

JÓHANNSSON,

stuðningsmaður Derby County og eldri borgari, Seyðisfirði

Frá Þorvaldi Jóhannssyni

Höf.: Þorvaldi Jóhannssyni