Skúli Eggert Þórðarson.
Skúli Eggert Þórðarson.
Borist hafa 34.835 formlegar umsóknir til embættis ríkisskattstjóra frá 53.600 einstaklingum um leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána. Þá hafa borist 3.924 umsóknir um að ráðstafa séreignarlífeyrissparnaði inn á fasteignalán.

Borist hafa 34.835 formlegar umsóknir til embættis ríkisskattstjóra frá 53.600 einstaklingum um leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána.

Þá hafa borist 3.924 umsóknir um að ráðstafa séreignarlífeyrissparnaði inn á fasteignalán. Til viðbótar er 3.851 umsókn þar sem farið hefur verið inn í kerfið en umsókninni ekki lokið. Heimasíða leiðréttingarinnar, leidretting.is, hefur verið heimsótt af tæplega 78 þúsund gestum.

Fer vel af stað

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segir skuldaleiðréttinguna fara vel af stað.

„Umsóknarferlið vegna séreignarlífeyrissparnaðarins er flóknara ferli þannig að það er eðlilegt að fólk fari þar tvisvar sinnum inn,“ segir Skúli Eggert og bætir við að umsóknirnar komi frá samtals 100 löndum.

„Þetta er fólk sem er statt í öðrum löndum eða hefur flutt til annara landa en á rétt á þessum aðgerðum og var á Íslandi 2008-2010,“ segir Skúli.

Þann 26. mars síðastliðinn kynnti ríkisstjórnin tvö lagafrumvörp með það að markmiði að lækka húsnæðisskuldir heimila í landinu og auðvelda þeim sem ekki eiga íbúð að kaupa húsnæði.

Boðið er upp á tvær leiðir. Annars vegar leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar skattaafslátt vegna séreignarlífeyrissparnaðar.

Þeir sem voru með lán, sem uppfylla kröfur um leiðréttingu en skulda ekki lengur verða ekki útundan. Þeim verður boðið upp á sérstakan persónuafslátt, líkt og fram kemur á heimasíðu leiðréttingarinnar. ash@mbl.is