QuizUp Þorsteinn Friðriksson segir siðastliðið hálft ár ævintýri líkast.
QuizUp Þorsteinn Friðriksson segir siðastliðið hálft ár ævintýri líkast. — Morgunblaðið/Ómar
Notendum QuizUp-spurningaleiksins frá Plain Vanilla hefur fjölgað um 100 þúsund á viku að jafnaði undanfarnar vikur og hafa nú 20 milljónir manna í 230 löndum sótt sér leikinn. QuizUp var fyrst gefinn út í nóvember síðastliðnum fyrir iOS-stýrikerfið.

Notendum QuizUp-spurningaleiksins frá Plain Vanilla hefur fjölgað um 100 þúsund á viku að jafnaði undanfarnar vikur og hafa nú 20 milljónir manna í 230 löndum sótt sér leikinn.

QuizUp var fyrst gefinn út í nóvember síðastliðnum fyrir iOS-stýrikerfið. Notendum spurningaleiksins hefur fjölgað hratt síðan þá og í mars varð leikurinn einnig fáanlegur fyrir Android-stýrikerfi.

Frá útgáfu leiksins hafa leikmenn spilað yfir 2 milljarða leikja, eða um 6 milljón leiki á dag. Í QuizUp er að finna yfir 220 þúsund spurningar í rúmlega 400 flokkum.

Í fyrsta sæti á Spáni

Plain Vanilla hefur nú gefið út QuizUp á þýsku og spænsku, en þar geta notendur svarað spurningum í leiknum á sínu eigin móðurmáli og keppt við spilara sem svara sömu spurningum á ensku. Leikurinn á spænsku sat um tíma í efsta sæti í App Store á Spáni fyrir ókeypis leiki en situr nú í þrettánda sæti. Um þessar mundir er unnið er að því að þýða leikinn yfir á fleiri tungumál, þar á meðal á kínversku, og aðlaga hann enn frekar ólíkum löndum.

„Síðastliðið hálft ár hefur verið mikið ævintýri,“ segir Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og forstjóri Plain Vanilla, í tilkynningu frá félaginu. „Leikurinn hefur vaxið hraðar en við þorðum nokkurn tímann að vona og það er ótrúlegt að vita til þess að yfir 20 milljónir manna hafi sótt sér leikinn.“