Endurtalið Frétt Morgunblaðsins 30. maí 1978 um endurtalningu atkvæða í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík. Talið var í Austurbæjarskóla.
Endurtalið Frétt Morgunblaðsins 30. maí 1978 um endurtalningu atkvæða í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík. Talið var í Austurbæjarskóla.
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Nokkur dæmi eru um endurtalningu atkvæða í sveitarstjórnarkosningum hér á landi frá fyrri árum. Sú umfangsmesta var í hinum sögulegu borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík vorið 1978.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Nokkur dæmi eru um endurtalningu atkvæða í sveitarstjórnarkosningum hér á landi frá fyrri árum. Sú umfangsmesta var í hinum sögulegu borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík vorið 1978. Þá voru öll atkvæði, önnur en þau sem kjörstjórn hafði sérstaklega úrskurðað um, endurtalin. Samtals voru þetta um 47 þúsund atkvæði.

Yfirstjórnin sagði að ástæðan fyrir endurtalningunni væri níu atkvæða munur sem komið hefði í ljós á afhentum kjörseðlum og nokkur brögð hefðu verið að því við talninguna að kjörseðlar hefðu flokkast ranglega.

Geysispennandi kosninganótt

Vera má að það hafi einnig haft áhrif að tiltölulega fá atkvæði réðu því að Sjálfstæðisflokkurinn missti að þessu sinni hálfrar aldar meirihluta sinn í borgarstjórn. Það var þó ekki flokkurinn sem óskaði eftir endurtalningunni, heldur var það ákvörðun yfirstjórnar.

Talningin í borgarstjórnarkosningum 28. maí 1978 var geysispennandi. Alveg fram undir morgun leit út fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn héldi meirihluta sínum. Svo virtist þó sem á þriðja hundrað atkvæða vantaði, en þau fundust óvænt í dögun meðal tómra kjörkassa. Sigurvegari kosninganna var Alþýðubandalagið sem fékk 13.844 atkvæði eða 29,8% og fimm borgarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 22.100 atkvæði eða 47,4%. Alþýðuflokkurinn fékk 6.250 atkvæði eða 13,4% og Framsóknarflokkurinn 4.308 eða 9,4%.

Meirihlutinn féll

Morgunblaðið greindi frá úrslitunum með „styrjaldarletri“ á forsíðu þriðjudaginn 30. maí: „Vinstri stjórn í Reykjavík.“ Sjálfstæðismönnum var enda mjög brugðið. Þeir höfðu ekki átt von á því að tapa meirihlutanum og þorri kjósenda hafði lagst til hvílu eftir kosninganóttina sannfærður um að meirihlutinn hefði haldið velli.

Engar breytingar urðu á fulltrúafjölda flokkanna við endurtalninguna. En svolítill munur reyndist á upphaflegum lokatölum og endurtalningunni. Alþýðuflokkurinn tapaði ellefu atkvæðum og Sjálfstæðisflokkurinn níu, en Framsóknarflokkurinn bætti við sig einu og Alþýðubandalagið átján atkvæðum.

Ekkert yfirlit til

Ekki er kunnugt um að til sé nein samantekt á því hvenær endurtalið hefur verið í kosningum hér á landi. Leit í gömlum blöðum á vefnum timarit.is leiðir hins vegar í ljós að nokkur dæmi eru um slíkt frá fyrri árum. Ekki eru fyrir hendi skýrar reglur um það hvenær rétt sé að endurtelja. Yfirleitt hafa kjörstjórnir látið framboðslista eiga frumkvæði að því að óska eftir endurtalningu, en það var þó ekki í kosningunum til borgarstjórnar Reykjavíkur 1978.