Axel Kristjánsson
Axel Kristjánsson
Eftir Axel Kristjánsson: "Þegar Alþingi fjallaði um frumvarp að lögum þar að lútandi eftir vandlegan undirbúning brá svo við, að forysta Samfylkingar sneri við blaðinu."

Fyrrverandi formaður Samfylkingar hrökk við og talaði nokkuð stórt um siðareglur og siðferði, þegar fréttist, að tveir ráðherrar ætluðu að vera viðstaddir opnun Norðurár. Þótti mörgum lítið tilefni, en sumir fjölmiðlar reyndu að gera sér mat úr því með litlum árangri.

Ýmislegt hefur verið rætt og ritað um siðareglur og siðferði í sambandi við styrki til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna í formi fjárstyrkja og gjafa, jafnvel veisluhalda og vináttuheimboða. Ekki eru margir, sem hafa hreinan skjöld í þeim efnum, og flestir hafa misst sjónar á siðferði, þegar á hefur reynt í þessum efnum, jafnvel þjóðhöfðingjar.

Í umfjöllun fjölmiðla hefur ótrúlega lítið verið fjallað um þetta. Á sínum tíma var forseta lýðveldisins hlíft við umfjöllun um það, að hann beitti umdeildu neitunarvaldi í fjölmiðlamálinu til að þjóna útrásarvíkingum Baugsveldisins, en þeir voru þá orðnir vinir Samfylkingarinnar.

Samfylkingin var þá gengin á mála hjá Baugsveldinu og var líka hlíft. Einn af helstu leiðtogum þess flokks, Össur Skarphéðinsson, hafði með réttu a.m.k. tvisvar skorað á forsætisráðherra, Davíð Oddsson, að beita sér fyrir því, að ríkisstjórn og Alþingi kæmu böndum á samþjöppun fjölmiðlavaldsins í höndum Baugsveldisins, og var sannarlega full ástæða til þess. Þegar Alþingi fjallaði um frumvarp að lögum þar að lútandi eftir vandlegan undirbúning brá svo við, að forysta Samfylkingar sneri við blaðinu. Nú hafði runnið upp fyrir mönnum á þeim bæ, að vinátta og fjármagn eins helsta fjárglæframanns í bankakerfinu var í húfi. Þá beitti Samfylkingin forseta lýðveldisins þrýstingi, með skírskotun til dekurs hans við vinstri öflin á Íslandi, og fékk hann til að beita því neitunarvaldi, sem hann hafði fengið í arf frá einveldiskonungum dönskum; valdi, sem engum af fyrirrennurum hans hafði dottið í hug að beita og nauðga þannig vilja Alþingis og þjóðarinnar.

Tilgangurinn helgaði meðalið. Allt var þetta gert til að Samfylkingin yrði ekki af vináttu og stuðningi fjárglæframannsins, sem þá réð ríkjum í 365 miðlum og a.m.k. einum af bönkum landsins. Þetta er rakið á mjög skýran hátt í bók Björns Bjarnasonar, Rosabaugur yfir Íslandi, og ætti að vera skyldulesning allra, sem vilja vita, hvað gekk á, þegar stuðningur við Samfylkinguna var sem mestur úr herbúðum þeirra manna, sem einir bera ábyrgð á bankahruninu á Íslandi.

Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir lítilsvirðingu fyrir kjósendum í öllu, sem máli skiptir, skal nú Samfylkingin leidd til valda í Reykjavík. Hún verður þá leidd til valda í samvinnu við flokk, sem varð til vegna metorðagirndar formanns þess flokks.

Eins og allt er í pottinn búið er því eðlilegt, að leiðtogi Samfylkingarinnar í Reykjavík hafi tvær siðferðishækjur að ganga við sem borgarstjóri.

Höfundur er lögmaður.