Fax Spuni er myndarlegur hestur og ekki amaleg fyrirsæta.
Fax Spuni er myndarlegur hestur og ekki amaleg fyrirsæta.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hesturinn Spuni er talinn líklegur til að skara fram úr á landsmótinu. Hann er af miklum afbragðshestum kominn og tekur frægðinni af yfirvegun.

Margir bíða spenntir eftir að sjá hestinn Spuna frá Vesturkoti sýna listir sínar á landsmótinu í ár. Spuni náði góðum árangri í úrtöku fyrir Landsmótið og kemur inn á mótið með hæstu einkunn þeirra hesta sem mæta í A-flokki gæðinga. Hann er í hópi þeirra hesta sem talið er að eigi möguleika á að standa uppi sem sigurvegari í A flokknum.

Þórarinn Ragnarsson er knapi Spuna og hefur undanfarin tvö ár unnið hörðum höndum að þjálfun hans. Eigandi Spuna er Hulda Finnsdóttir, unnusta Þórarins, en þau kynntust þegar þau voru bæði í námi við Landbúnaðarháskólann á Hólum. Þórarinn flutti í Vesturkot á Skeiðum fyrir þremur árum þegar Spuni var fimm vetra. „Þá var hann í kynbótadómum, sýndur af Þóri Þorgeirssyni, og sló þar heimsmet. Síðan þá hefur Spuni ekki tekið þátt í neinum sýningum að ráði en er í dag vel undirbúinn fyrir landsmótið.“

Góð genablanda

Spuni er mjög vel ættaður, undan Stelpu frá Meðalfelli sem er Oddsdóittir frá Selfossi en móðir Stelpu er Eydísi frá Meðalfelli. Pabbinn er Álfasteinn frá Selfossi, undan Álfadís frá Selfossi og Keili frá Miðsitju. Allt eru þetta afbragðshross sem fengið hafa mjög góða dóma.

Þórarinn segir Spuna vera mjög jafnan í öllum gangi og með góða byggingu. „Það eru ekki margir ókostir við hann og fjölmargir góðir kostir. Hann er líka mjög geðgóður hestur og traustur.“

Spuni er fallega jarpur, svo dökkur að hann er nærri svartur, og vel haldinn svo að á sumum myndum mætti halda að hann væri nýbónaður. „Það er ekki mikill vandi að hugsa um Spuna – enda þykir honum gott að éta,“ bætir Þórarinn við.

Segir Þórarinn að árangur hests eins og Spuna liggi að stórum hluta í genunum og er t.d. fótaburðurinn að miklu leyti ættgengur. Til að ná árangri í keppni verði þó að fara saman meðfæddir hæfileikar og löng þjálfun. Afburðahestur eins og Spuni er iðulega í þjálfun fimm eða sex daga vikunnar, um klukkustund í senn, og er þá ekki talinn með sá tími sem fer í almenna umhirðu. Má reikna með að frá því Þórarinn tók fyrst við þjálfun Spuna fyrir tveimur árum hafi þjálfunartíminn hæglega numið samtals meira en sex hundruð klukkustundum.

Kippir sér ekki upp við athyglina

Að sögn Þórarins er ákaflega gaman að vinna með hesti eins og Spuna. „Þjálfunin hefur gengið vel og góð orka í honum. Það er ofboðslega gaman að sjá alla vinnuna ganga upp, hvort heldur við æfingar eða í reiðtúrum.“

Ekki ætti að koma á óvart að Spuni er þegar orðinn mjög vinsæll til undaneldis og fær reglulega í heimsókn til sín hryssur. Þessutan hann taka frægðinni af yfirvegun. „Honum virðist stundum vera nokkuð sama um alla athyglina og er t.d. ekki að kipa sér upp við þótt margir vilji klappa honum og strjúka,“ bætir Þórarinn við.

ai@mbl.is