Reiðubúin Björgunarsveitir af öllu landinu sinna hálendisvakt yfir sumartímann. Sjálfboðaliðar eyða hluta af sumarfríi sínu til björgunarstarfa.
Reiðubúin Björgunarsveitir af öllu landinu sinna hálendisvakt yfir sumartímann. Sjálfboðaliðar eyða hluta af sumarfríi sínu til björgunarstarfa. — Ljósmynd/Landsbjörg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.is Hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar hófst síðastliðinn föstudag og mun standa yfir þar til í seinni hluta ágústmánaðar. Fjórir hópar standa vaktina hverju sinni og verða þeir á þremur svæðum.

Fréttaskýring

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar hófst síðastliðinn föstudag og mun standa yfir þar til í seinni hluta ágústmánaðar. Fjórir hópar standa vaktina hverju sinni og verða þeir á þremur svæðum. Einn hópur á Sprengisandi, annar norðan Vatnajökuls og tveir á Fjallabaki. Björgunarsveitir landsins skiptast á að standa vaktina og taka 200 sjálfboðaliðar og um 30 björgunarsveitir þátt í verkefninu. Það er um þriðjungur allra björgunarsveita landsins og er þetta níunda sumarið í röð sem hálendið er vaktað með þessum hætti, að sögn Jónasar Guðmundssonar, verkefnastjóra slysavarna ferðamanna. Hann segir ástæðu þess að verkefnið hafi verið sett af stað á sínum tíma vera að í þá tíð hafi útköllum á hálendinu fjölgað mikið. Þar sem vegalengdir í bjargir voru oft töluverðar var ákveðið að færa bækistöð björgunarsveitanna á hálendið. Hann tekur fram að atvikum hafi fjölgað töluvert síðan þá og eru þau tvöfalt fleiri nú en þau voru fyrir fjórum til fimm árum.

Atvikin eru af ýmsum toga

Jónas segir störf björgunarsveitarmanna á hálendisvaktinni vera margvísleg og að um 2.100 atvikum hafi verið sinnt í fyrra. Þar af voru 600 atvik þess eðlis að kalla hefði þurft björgunarsveitir út ef ekki hefði verið fyrir hálendisvaktina. Önnur atvik voru smávægilegri og þeim var sinnt þar sem björgunarsveitir voru á svæðinu. Meðal þeirra atvika sem björgunarsveitirnar hafa sinnt á hálendinu undanfarin ár eru beinbrot, tognanir, veikindi, bílavandræði, týndir ferðamenn og almennar leiðbeiningar, til dæmis hvernig keyra eigi yfir ár. Jónas tekur það sem dæmi að í á annan tug skipta hafi björgunarsveitarmenn keyrt til móts við sjúkrabíl frá Landmannalaugum.

Þá segir hann að í fyrra hafi björgunarsveitarmenn leitað að týndu fólki í um það bil 30 skipti.

„Hóparnir bregðast skjótt við og finna viðkomandi yfirleitt á einum til tveimur tímum. Þetta er augljóslega mun fljótlegra en að kalla út björgunarsveitir úr byggð enda tekur það tíma fyrir þær að koma sér upp eftir og svo framvegis,“ segir Jónas. Hann segir að í mörgum tilfellum sé ræst viðbragð úr byggð og að hóparnir snúi frekar til baka ef viðkomandi einstaklingur finnist frekar en að bíða og sjá hvað gerist.

„Við erum með eitt til tvö atvik flest sumur þar sem við teljum að hálendisvaktin og björgunarsveitarmenn sem að henni standa bjargi mannslífum,“ segir Jónas.

Sjálfboðaliðar gefa vinnu

Að sögn Jónasar eru allir þeir sem eru á hálendisvaktinni í sjálfboðavinnu eins og almennt gengur með björgunarstörf.

„Þau fá engin laun og eru algjörlega í sjálfboðavinnu. Fólk leggur sitt sumarfrí í þetta og borgar sjálft fyrir matinn sinn. Björgunarsveitirnar leggja sjálfar til tæki og tól og fellur kostnaður við verkefnið því á sjálfboðaliða og sveitir,“ segir Jónas. Hann segir peningana koma frá fjáröflunum björgunarsveitanna og ítrekar mikilvægi flugeldasölunnar og sölu neyðarkallsins. Hann segir stefnt að því að finna fjármagn til að minnka kostnað björgunarsveitanna.

Á vaktinni í sumarfríinu

Ein þeirra sem standa hálendisvaktina um þessar mundir er Hafdís Erla Árnadóttir, starfsmaður öryggisgeðdeildar á Kleppi. Hún segist eyða hluta af sumarfríinu sínu á hálendisvaktinni ásamt öðrum úr björgunarsveitinni Ársæli frá Reykjavík og er hún á vaktinni í fyrsta skipti. „Við komum á laugardaginn og við verðum hér fram á sunnudag,“ segir Hafdís. Hún segir þetta vera mjög spennandi og að þetta hafi verið ofarlega á blaði þegar kom að því að skipuleggja sumarfríið.

„Það er ævintýri að fá að vera með ferðafólkinu og hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi á Fjallabaki,“ segir Hafdís en björgunarsveitin Ársæll sér um vaktina á Fjallabaki.

„Þetta gengur ljómandi vel og allir eru mjög ánægðir hérna,“ segir Hafdís.