[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Veruleg aukning hefur orðið í aðsókn að sjávarútvegsfræðináminu við Háskólann á Akureyri. Fáir höfðu áhuga á náminu þegar bankaævintýrið stóð sem hæst en viðhorfið virðist hafa gjörbreyst eftir hrun

Undanfarin ár hefur orðið mikil aukning í áhuga á sjávarútvegsfræðinámi Háskólans á Akureyri. Samhliða því að nemendum hefur fjölgað hefur orðið töluverð breyting á hlutfalli kynjanna í sjávarútvegsfræðináminu. Í dag eru 40% nýrra umsækjenda kvenkyns en voru áður yfirleitt ekki nema um 10% og stundum jafnvel engar konur í náminu.

„Frá því námið hóf göngu sína hafa að meðaltali um tíu nemendur útskrifast úr sjávarútvegsfræði ár hvert, en fjöldinn sveiflast mikið eftir árum frá aðeins 1-2 nemendum upp í 22. Var aðsóknin mjög dræm árin í aðdraganda bankahruns en eftir það urðu mikil umskipti,“ segir Hreiðar Þór Valtýsson, brautarstjóri sjávarútvegsfræðibrautar. „Núna hafa okkur borist 44 umsóknir fyrir námið næsta vetur og líklegt að það skili sér í tæplega 30 nemendum á skólabekk með haustinu.“

Blanda saman viðskiptum og raungreinum

Sjávarútvegsfræðinámið spannar þrjá vetur og lýkur með BS-gráðu. „Háskólinn á Akureyri bauð í fyrsta skipti upp á þetta nám árið 1990 en fram að því höfðu íslenskir sjávarútvegsfræðingar einkum sótt menntun sína til Háskólans í Tromsö. Þótti mönnum tímabært að bjóða upp á sambærilegt nám hér á landi og varð þessi nýja námsbraut því til á fyrstu árum háskólans, að miklu leyti byggð á áherslum námsins í Noregi.“

Segir Hreiðar hægt að lýsa náminu sem blöndu af viðskiptafræði og raunvísindum. „Skiptist námið í þrjár stoðir og eru margar námsgreinarnar kenndar með öðrum námsbrautum við háskólann. Um þriðjungur námsins er viðskiptagreinar, þá er þriðjungur helgaður raungreinum á borð við efnafræði, örverufræði og stærðfræði og loks fjallar þriðjungur námsins um sérfög á borð við sjávarlíffræði, haffræði, veiðitækni, vinnslutækni og matvælafræði fiska.“

Er mögulegt að læra sjávarútvegsfræðina í fjarnámi og er þá hlustað á upptökur af fyrirlestrum yfir netið. Hittast nemendur í vinnulotum tvisvar á önn og fást þá m.a. við tilraunir og ýmis verkefni.

Segir Hreiðar ljóst að vinsældir námsins breytast í takt við stemninguna í atvinnulífinu. Þegar bankaævintýrið stóð sem hæst hafi ekki þótt spennandi að læra um fisk, en með hruni bankanna og uppgangi í sjávarútvegi hafi augu margra námsmanna opnast á ný fyrir áhugaverðum möguleikum á þessu sviði. „Reynsla eldri nemenda hefur líka sýnt að fólk með gráðu í sjávarútvegsfræðum getur plumað sig víða og um helmingur útskrifaðra hefur fundið sér störf við sölu og rekstur í öðrum atvinnugreinum, s.s. í fjármálageira eða matvælaiðnaði. Við höfum fylgst náið með útskrifuðum nemendum og séð að atvinnuhorfurnar eru yfirleitt góðar.“

Hámarka verðmæti afurðanna

Að mati Hreiðars felast í því ákveðin verðmæti fyrir sjávarútveginn, og um leið fyrir hagkerfi landsins, að búa að vandlega menntuðum sjávarútvegsfræðingum. „Líta má á það sem grunnhlutverk sjávarútvegsfræðingsins að reyna að hámarka verðmæti sjávarafurða. Gróflega má reikna með að íslenskur sjávarútvegur skili útflutningstekjum upp á milljarð króna hvern virkan dag og blasir við að jafnvel ef tekst að auka bara örlítið við verðið er ávinningurinn verulegur. Hefur mér sýnst sjávarútvegsfræðingarnir okkar standa sig vel í þessum efnum, og reyna stöðugt að gera enn betur.“

Formlegur umsóknarfrestur sjávarútvegsfræðibrautar er runninn út, en Hreiðar segir þó enn tekið við umsóknum frá áhugasömum nemendum. Segir hann nemendur úr ýmsum áttum hafa þrifist vel í náminu. „Við tökum við nemendum af öllum brautum framhaldsskólanna og hafa þeir alla jafna staðið sig vel. Raungreinahlið námsins hefur þó reynst mörgum krefjandi og standa þeir nemendur betur að vígi sem eru með sterkan grunn í raungreinum.“

Hreiðar bætir þó við að nemendur af málabrautum ættu ekki að hika við að senda inn umsókn, því víðtæk tungumálaþekking geti gefið þeim forskot þegar komið er út á vinnumarkaðinn. „Íslenskur sjávarútvegur starfar á alþjóðamarkaði og þykir mörgum fyrirtækjum verulegur fengur í starfsmanni sem getur t.d. tjáð sig vel á spænsku, frönsku eða þýsku. Stundum eru sum námskeiðin við brautina kennd á ensku, til að koma til móts við erlenda skiptinema, og eiga íslensku nemendurnir þá stundum til að kvarta og þykja það gera námið erfiðara. Þeir sem útskrifaðir eru hafa þó oft á orði við okkur að þeir hefðu helst viljað hafa meira af náminu á ensku enda starfa þeir í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.“

Alþjóðasjávarútvegsfræði

Margt ungt fólk sér í dag í miklum hillingum að starfa erlendis og áhuginn er oft á hverskyns námi sem hefur forskeytið „alþjóða“, hvort sem um er að ræða alþjóðaviðskipti, alþjóðatengsl eða alþjóðalögfræði.

Hreiðar segir að sjávarútvegsfræðin skapi ekki síður spennandi atvinnutækifæri erlendis. „Margir af nemendum okkar hafa ráðið sig til starfa á erlendri grundu, þá ýmist fyrir erlend fiskvinnslu- og fisksölufyrirtæki, eða á skrifstofur og útibú íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.“