Spenna Í Assassins Creed ríður leikmaðurinn meðal annars arabískum fákum.
Spenna Í Assassins Creed ríður leikmaðurinn meðal annars arabískum fákum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í mörgum af betri tölvuleikjum síðustu ára eru hestar mjög áberandi.

Rysjótt veður hefur truflað Landsmót hestamanna fyrstu keppnisdagana og þurfti af þeim sökum að gera breytingar á dagskránni á þriðjudag og miðvikudag. Standa vonir til að veðrið skáni og ekki verði fleiri truflanir.

En vonskuveður og innivera þarf samt ekki að þýða að ekki megi dást að og fara á bak fallegum hestum. Það verður bara að stunda hestamennskuna í tölvunni.

Kúreki á sléttunni

Finna má aragrúa af tölvuleikjum sem snúast um hesta; allt frá sáraeinföldum netleikjum yfir í hesta-herma og loks mikilfenglega tölvuleiki þar sem hestar eru ekki aðalatriðið en þó í mikilvægu hlutverki og áberandi í framvindu leiksins.

Eitt besta dæmið um góðan leik með mikla áherslu á hesta er kúrekaskotleikurinn Red Dead Redemption sem kom út árið 2010. Þótti leikurinn tímamótaverk, en um er að ræða galopinn „sandkassaleik“ úr smiðju Rockstar Games, þeirra sömu og eru á bak við Grand Theft Auto -leikina.

Inn á milli þess að lenda í skotbardögum við útlaga þarf spilarinn að fara á milli staða á hestbaki, jafnvel fanga villihesta og temja þá. Skartar leikurinn fjölda hestategunda og tókst hönnuðum leiksins vel upp við að gera fallega tölvuhesta sem hreyfa sig nokkuð eðlilega. Er von á framhaldsleik, Red Dead Redemption 2, með haustinu.

Hestar eru líka áberandi í leikjaseríunni Assassin's Creed . Þar ferðast spilarinn aftur í tíma og gegnir hlutverki launmorðingja sem vinnur verk sín fyrir dularfullt og valdamikið leynifélag. Spannar saga leikjanna tímabilið allt frá krossförunum til nýlendutímans og loks að nýjasta viðbótin við seríuna í október gerist í frönsku byltingunni. Í öllum tilvikum þarf oft að fara á hestabak og ríða hratt á milli borga á glæsilegum fákum.

Í upptalningunni verður líka að hafa World of Warcraft , þann eldgamla en lífseiga fjölspilunarleik. Í þessum risastóra ævintýraheimi er vissara að eiga einhvers konar ferfættan farskjóta enda mjög tímafrekt að fara á milli staða á tveimur jafnfljótum. Eru til heilu vefsíðurnar helgaðar hestum og öðrum furðudýrum sem ríða má á milli bardaga við uppvakninga, tröll og dreka. Er úrvalið ekki bara bundið við hesta heldur má finna kameldýr, reiðgeitur, mammúta og tígrisdýr sem búið er að venja við hnakkinn. ai@mbl.is