Hluthafar ALCOA (Aluminum Company of America) ættu að íhuga breytingu á nafni félagsins. Nafnið Aircoa á hugsanlega betur við eftir að félagið festi kaup á Firth Rixon á 2,9 milljarða Bandaríkjadala.

Hluthafar ALCOA (Aluminum Company of America) ættu að íhuga breytingu á nafni félagsins. Nafnið Aircoa á hugsanlega betur við eftir að félagið festi kaup á Firth Rixon á 2,9 milljarða Bandaríkjadala. Firth framleiðir og þróar vélarhluti fyrir þotuhreyfla. Alcoa hefur stöðugt verið að þróa sig frá því að vera hrávöruframleiðandi yfir í að vera framleiðandi fullþróaðrar iðnaðarvöru. Sú framleiðsla byggist á málmum eins og títaníum og nikkeli. Með kaupunum á Firth aukast tekjur af starfsemi í flugtæknigeiranum um fimmtung eða í fimm milljarða dala. Miðað við vaxtarhorfur þess geira þarf engan að undra að gengi hlutabréfa Alcoa hækkaði um 2% þegar kaupin voru tilkynnt.

Samkvæmt áætlunum Alcoa gerir sérhæfing Firth það að verkum að vöxtur starfseminnar verður tvöfalt meiri en sá 5-6% vöxtur sem gert er ráð fyrir til lengri tíma litið í flugtæknigeiranum. Starfsemi Alcoa er þríþætt: Frumvinnsla (framleiðsla á súráli og áli), miðvinnsla (álplötur sem eru notaðar í dósir, flugvélar og bifreiðar) og fullvinnsla (vélarhlutir í þotuhreyfla, hraðla, hjól).Virðisaukinn verður til í tveimur síðarnefndu starfsþáttunum að sögn Alcoa. Þeir stóðu undir tveimur þriðju af hagnaði síðasta fjórðungs.

Offramboð hefur verið á áli, súráli og báxít um árabil. Alcoa hefur brugðist við þessu með því að loka álverum (báxít er grafið upp og breytt í súrál sem er svo brætt í ál). Einnig hefur verið hagrætt í rekstri þeirra álvera sem enn eru í rekstri. Framleiðslugetan hefur minnkað um 28% frá árinu 2007. Meiri hagræðing hefur náðst í súrálsframleiðslu en í álframleiðslunni.

Gengi hlutabréfa Alcoa hefur hækkað um 90% undanfarið ár. Fjárfestar eru ánægðir með ákvörðun stjórnenda félagsins um að leggja meiri áherslu á framleiðslu fyrir flugtæknigeirann og bifreiðaframleiðslu (gert er ráð fyrir að tekjur vegna sölu á álplötum til bifreiðaframleiðenda sexfaldist frá árinu 2013 til ársins 2018 vegna aukningar á notkun áls við smíði stærri bifreiða). Gengið er nú yfir 16 dali á hlut. Það er að vísu langt undir því sem það fór hæst fyrir fjármálakreppuna en þá fór það í 40 dali. Það er minnisvarði um hversu gjöfull álbransinn eitt sinn var.