Júlíus Óskar Halldórsson fæddist 29. júlí 1924 í Reykjavík. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 27. júní 2014.

Júlíus var sonur hjónanna Halldórs Jóns Guðmundssonar, f. á Leirum, Austur-Landeyjum, 20. maí 1900, d. í júní 1976, og Sigrúnar Jónsdóttur, f. í Vestra-Fíflholti, Landeyjum, 16.10. 1892, d. í desember 1974. Systir hans er Ingibjörg Halldórsdóttir, f. 1.9. 1929.

Júlíus kvæntist 30. apríl 1954 eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigríði Á. Sigurðardóttur, f. í Rekavík bak Höfn á Hornströndum 18.4. 1929. Hún er dóttir hjónanna Sigurðar Hjálmarssonar, f. 14.9. 1894, d. í nóv. 1969, og Ingibjargar Bárðlínu Ásgeirsdóttur, f. 23.4. 1898, d. í okt. 1935.

Júlíus og Sigríður eignuðust fimm dætur, þær eru: Ingibjörg Bára, maki Símon Johnsen Þórðarson; Sigrún Alda, maki Björgvin Andri Guðjónsson; Ásgerður Ósk, maki Hans Wilhelm; Lilja Hrönn; Heiða Björk, maki Óskar Kristjánsson. Júlíus var áður kvæntur Guðrúnu Jónsdóttur og átti með henni soninn Halldór Jón, maki Ellen Marie Schjerven. Fyrir átti hann börnin Ingibjörgu Helgu, Jóhann Leví, Guðnýju, Grétar Örn, Ragnar Geir, Bjarnrúnu og Valgarð.

Júlíus var leigubílstjóri um árabil en ævistarf hans var hjá Strætisvögnum Reykjavíkur og urðu árin 47, lengst af sem vaktformaður. Meðfram starfi sínu hjá Strætisvögnum Reykjavíkur vann hann sem ökukennari.

Útför Júlíusar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 3. júlí 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Með sárum söknuði og ljóði eftir föður þinn kveðjum við þig.

Hér angar allt til stranda

í árdagsroða blæ,

og ylur heilags anda

fer yfir land og sæ.

Minn hugur vorleið velur,

í vonarörmum grær,

það blóm, sem ást mín elur

og aldrei bliknað fær.

Gleymdur skal genginn vegur,

gleðinnar léttast brár.

Anda þinn að sér dregur

afl minnar hjartans þrár.

Leiddu mig ljóss á brautum,

lifa með þér ég kýs,

sviptu mig sorg og þrautum

sólbjarta vonardís.

Ljúfir straumar leiða

laða fjöllin blá.

Hingað upp til heiða

huga minn og þrá.

Frið og gleði fann ég

fyrst í þessum reit.

Þú geymir allt sem ann ég

yndislega sveit.

(Halldór Jón Guðmundsson)

Við hittumst í sumarlandinu fagra. Þín

Sigríður og dætur, Ingibjörg, Sigrún, Ásgerður, Lilja og Heiða.

Kær tengdafaðir og ekki síst góður vinur er fallinn frá. Ég kom inn í líf Júlla er hann bjó í Ásgarði 32 með Siggu tengdó og fimm dætrum sínum. Við Júlli náðum strax vel saman frá fyrsta degi, kannski vegna þess að hann sá mannsefni í mér fyrir hana Sigrúnu sína, hver veit? Alla vega gekk það upp að fyrsti tengdasonurinn var í höfn.

Júlli var lífsglaður maður og töffari alla sína tíð. Bílstjóri nr. 35 hjá strætó og búinn að vinna sig upp í vaktformann með bækistöð í gamla gasfélagshúsinu niðri á Hlemmi. Rakstur, rakspíri, stífpressað uniform og vel burstaðir skór og greiðan í brjóstvasa var fastur liður fyrir vakt, aukavaktir teknar ef þær buðust og ökukennsla í aukavinnu. Svona var þetta bara til að endar næðu saman á heimilinu í Ásgarðinum. +

Ég heyrði Júlla aldrei kvarta né hallmæla nokkurri sál en hann hafði skoðanir á hlutunum. Lífsgleði hans náði út fyrir endimörk lífsins, þótt eflaust hafi oft á móti blásið þá var hann ekki að flíka því. Örlæti Júlla gagnvart mér og fleirum var með eindæmum, að fá nafnið hans á víxil var pottþétt. Víxillinn var keyptur. En það var eitt sem maður skynjaði fljótt, maður bað hann ekki að lána sér bílinn.

Bíllinn var í hans huga bæði atvinnutæki og stolt hans, án bílsins komu engar tekjur inn af ökukennslunni. En svo tíndust dæturnar hver af annarri að heiman og róðurinn fór að léttast.

Til Spánar var farið, sérstaklega Majorka, og komið heim með spænskar plötur sem rötuðu beint á fóninn í stofunni. Æskuslóðir sínar á Leirum undir Eyjafjöllum talaði Júlli alltaf um af hlýhug. Að renna austur var árlegur viðburður og geta þreifað á stokkum og steinum æsku sinnar. Það var andagift hans. Bíladellan yfirgaf Júlla aldrei; gat haldið prófinu til endaloka, þótt sumir hafi ekki verið hressir með það.

Að taka rúntinn niður Laugaveg upp Hverfisgötu og inn Borgartún til að fara í Bónus var vikulegt ævintýri. Flokkurinn og málgagnið höfðu einnig fastan sess í lífinu. Stundum var hann ósáttur við flokkinn, þá var bara farið niður í Valhöll og málin rædd við ráðamennina þar. Að yfirgefa flokkinn kom aldrei til greina. Lífið okkar saman er búið að spanna mörg ár, en nú er komið að leiðarlokum kæri vinur. Far í friði. Elsku Sigga, Guð styrki þig í þínum raunum. Þinn tengdasonur,

Björgvin Andri.

HINSTA KVEÐJA
Ég kveð kæran bróður með ljóði um Eyjafjöllin, sveitina sem hann unni, eftir föður okkar, Halldór Guðmundsson.
Ljúfir straumar leiða,
laða fjöllin blá
hingað upp til heiða
huga minn og þrá.
Frið og gleði fann ég
fyrst í þessum reit.
Þú geymir allt sem ann ég,
yndislega sveit.
Góða ferð,
Ingibjörg.