Hörður Ægisson hordur@mbl.is Síðustu ár hafa erlend tryggingafélög stundað starfsemi hérlendis í trássi við lög um gjaldeyrismál.

Hörður Ægisson

hordur@mbl.is

Síðustu ár hafa erlend tryggingafélög stundað starfsemi hérlendis í trássi við lög um gjaldeyrismál. Umboðsaðilar þeirra hafa gert samninga við tugþúsundir einstaklinga, undir því yfirskini að um sé að ræða tryggingar, þegar staðreyndin er sú að félögin hafa boðið upp á sparnað í erlendum gjaldeyri. Slík fjármagnsviðskipti hafa verið óheimil frá setningu hafta 2008.

Það er því vægast sagt undarlegt þegar talsmenn félaganna láta að því liggja að þau hafi í reynd stundað slíka starfsemi með samþykki Seðlabankans. Svo er alls ekki. Allt frá 2011 hefur það verið skýrt, og félögin upplýst um það, að sparnaðarleiðir þeirra hafa ekki verið í samræmi við reglur um fjármagnshöft.

Umræðan í kjölfar aðgerða Seðlabankans hefur verið með miklum ólíkindum. Aðgerðirnar lúta ekki að því að herða höftin heldur aðeins um það að framfylgja gildandi lögum og reglum og tryggja jafnræði.

Formaður Samfylkingarinnar er hins vegar á öðru máli. Sem þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra beitti hann sér gegn því að Seðlabankinn stöðvaði slík gjaldeyrisviðskipti. Með öðrum orðum taldi hann mikilvægt að meðal annars eitt stærsta fjárfestingafélag heims – Allianz í Þýskalandi – væri undanþegið lögum um gjaldeyrismál á sama tíma og íslenskir lífeyrissjóðir geta sig hvergi hreyft undir höftum. Það er einkennileg hagsmunagæsla.