Í Vesturbæ
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Íslandsmeistararnir í KR stöðvuðu í gærkvöldi fjögurra leikja sigurgöngu nýliða Víkings í deild og bikar þegar liðin mættust í Frostaskjólinu í Pepsi-deildinni. KR sigraði 2:0 en bæði mörkin komu snemma í síðari hálfleik.
Liðin voru jöfn fyrir leikinn í gærkvöldi en Víkingar höfðu unnið þrjá í röð í deildinni og ofan á það bættist stórsigur í bikarleik gegn Fylki. KR-ingar eru nú byrjaðir að safna stigum nokkuð rösklega eftir köflótta byrjun í deildinni. Var þetta þriðji sigur KR í röð í deildinni og sá fjórði alls því þeir eru eins og Víkingar komnir í átta liða úrslit bikarsins.
KR-ingar eru fimm stigum á eftir toppliði FH og sitja í 3. sæti en Víkingur er í 5. sæti. KR hefur nú þegar tapað þremur leikjum í deildinni, en FH og Stjarnan eru enn án taps. Þau hafa hins vegar gert nokkur jafntefli sem gefa lítið af sér í deild þar sem þrjú stig eru gefin fyrir sigur eins og íþróttaunnendur þekkja.
Gripu ekki tækifærið
Í fyrri hálfleik virtust Víkingar allt eins líklegir til þess að halda sigurgöngu sinni áfram. Þeir fengu ágæt marktækifæri en Stefán Logi Magnússon sá við þeim. Til að mynda bjargaði hann snaggaralega með góðu úthlaupi þegar Aron Elís Þrándarson splundraði vörn KR og komst inn í teiginn. Ef sækja á þrjú stig á KR-völlinn, í greipar Íslandsmeistaranna, þá þurfa menn að grípa þau tækifæri sem bjóðast. Víkingar gerðu það ekki að þessu sinni.Eftir átta mínútna leik í síðari hálfleik skoraði Óskar Örn Hauksson laglegt mark en ódýrt frá sjónarhóli Víkinga. Atli Sigurjónsson bætti öðru við ellefu mínútum síðar og mörkin slökktu í Víkingum. Þeir gerðu sig nánast aldrei líklega til þess að minnka muninn og KR-ingar höluðu inn sigurinn án mikillar fyrirhafnar á lokakafla leiksins.
KR-ingar voru í basli gegn spræku lið Víkings í fyrri hálfleik en þess ber að geta að erfitt var að ná tökum á leiknum í roki og rigningu sem íslenska miðsumarið skartaði í gærkvöldi. Eftir að KR náði tökum á leiknum áttu Víkingar ekki möguleika. Fossvogsbúar geta þó huggað sig við að þeirra bíður náttúrufegurðin við Ísafjarðardjúp þegar þeir heimsækja BÍ/Bolungarvík á sunnudaginn í bikarnum.
2:0 Atli Sigurjónsson 64 . skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf Hauks Heiðars Haukssonar frá hægri.
Gul spjöld:
Rauð spjöld:
M
Stefán Logi Magnússon (KR)
Haukur Heiðar Hauksson (KR)
Gonzalo Balbi (KR)
Óskar Örn Hauksson (KR)
Aron Elís Þrándarson (Víkingi)
Dofri Snorrason (Víkingi)
KR – Víkingur R. 2:0
KR-völlur, Pepsi-deild karla, 10. umferð, miðvikudag 2. júlí 2014.Skilyrði : Rok og rigning. Völlurinn blautur og þungur.
Skot : KR 7 (4) – Víkingur 10 (6).
Horn : KR 4 – Víkingur 3.
KR : (4-3-3) Mark : Stefán Logi Magnússon. Vörn : Haukur H. Hauksson, Grétar S. Sigurðarson, Aron Bjarki Jósepsson, Guðmundur R. Gunnarsson. Miðja : Gonzalo Balbi, Jónas Guðni Sævarsson, Atli Sigurjónsson (Almarr Ormarsson 76.). Sókn : Gary Martin (Kjartan H. Finnbogason 82.), Þorsteinn Már Ragnarsson (Farid Zato 55.), Óskar Örn Hauksson.
Víkingur R .: (4-3-3) Mark : Ingvar Þór Kale. Vörn : Kjartan Dige Baldursson, Alan Lowing, Óttar S. Magnússon, Halldór Smári Sigurðsson. Miðja : Kristinn J. Magnússon, Henry Monaghan (Eiríkur Stefánsson 78.), Aron Elís Þrándarson (Stefán B. Hjaltested 66.). Sókn : Dofri Snorrason, Pape M. Faye, Ívar Örn Jónsson (Agnar D. Sverrisson 66.).
Dómari : Valdimar Pálsson – 6.
Áhorfendur : 1.101.