Höfuðstöðvar Fulltrúar Fiskistofu og ráðuneytisins funduðu í gær.
Höfuðstöðvar Fulltrúar Fiskistofu og ráðuneytisins funduðu í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is „Við munum taka þessa umræðu á fundi bæjarráðs [sem fram fer í dag].

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Við munum taka þessa umræðu á fundi bæjarráðs [sem fram fer í dag]. Við höfum hins vegar rætt málin óformlega og þá hvernig við munum mynda hópinn sem fær þetta verkefni,“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, en verkefnahópi er ætlað að stuðla að því að flutningur aðalskrifstofu Fiskistofu norður í land gangi sem best fyrir sig. Á hópurinn einnig að veita starfsmönnum stofnunarinnar og fjölskyldum þeirra aðstoð við flutninginn til Akureyrar, vilji þeir yfirhöfuð flytjast búferlum.

Aðspurður segist Eiríkur Björn gera ráð fyrir því að taka sæti, eða jafnvel leiða verkefnahópinn. „Ég er búinn að setja mig í samband við fiskistofustjóra og upplýsa hann um stöðu mála.“ En til stendur að halda fund með fiskistofustjóra við fyrsta tækifæri, að líkindum í næstu viku, og hefur bæjarstjóri Akureyrar m.a. boðið honum að hitta fulltrúa starfsmanna. „Því þeir hafa eflaust spurningar sem snúa að bæði samfélaginu hér og sveitarfélagi,“ segir Eiríkur Björn og bætir við að ýmislegt sé því þegar farið í gang þó verkefnahópurinn hafi ekki enn verið skipaður með formlegum hætti.

Mikill mannauður í Fiskistofu

Spurður hvort hann hafi sett sig í samband við einhverja af starfsmönnum Fiskistofu kveður Eiríkur Björn nei við. „Við hins vegar vonumst eftir því að sem flestir starfsmenn sjái sér hag í þessu og hafi jafnframt tækifæri til að flytja. Það er mikill mannauður í starfsfólki stofnunarinnar og við viljum gjarnan að það sýni þessu áhuga.“

Borghildur Erlingsdóttir, formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana, segir brýnt að minna á mikilvægi þess að við endurskipulagningu á opinberri stjórnsýslu verði ávallt byggt á faglegum vinnubrögðum. Er með því m.a. átt við greiningu á starfsumhverfi og innviðum stofnunar sem áformað er að flytja, að skýr framtíðarsýn liggi fyrir og markmið flutnings og ákvörðun sé ávallt vel rökstudd. Bendir hún einnig á að mjög mikilvægt sé að standa vörð um bæði þekkingu og mannauð sem byggður hefur verið upp hjá viðkomandi stofnun.

„Þegar svona flutningur stofnana á sér stað flyst mannauðurinn því miður sjaldnast með. Reynslan sýnir að það tekur allt að fimm ár að ná upp fullri virkni stofnunarinnar á nýjan leik,“ segir Borghildur og bætir við að því sé ljóst að full ástæða sé til að vekja athygli á mikilvægi þess að staðið sé vel að fyrirhuguðum flutningi aðalskrifstofu Fiskistofu.

Eftir hádegi í gær fóru fulltrúar Fiskistofu á fund í húsakynnum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Var um að ræða fyrsta fund verkefnisstjórnar um flutning höfuðstöðva Fiskistofu norður í land.

Jóhanna S. Vilhjálmsdóttir, trúnaðarmaður starfsmanna Fiskistofu gagnvart SFR - stéttarfélagi í almannaþjónustu, er annar tveggja fulltrúa Fiskistofu í hópnum en Sigurjón Ingvason lögfræðingur fer fyrir hönd Bandalags háskólamanna.

Spurð út í fundinn svarar Jóhanna: „Við vorum beðin um að upplýsa ekki hvað kom fram á fundinum fyrr en við erum búin að ræða við okkar fólk.“ En að sögn hennar verða starfsmenn Fiskistofu settir betur inn í gang mála á sérstökum fundi sem haldinn verður fyrir hádegi í dag. Annar fundur verkefnisstjórnar er áformaður í næstu viku.