Vinir Aðalsteinn Bergdal og Gestur Einar Jónasson hafa þekkst svo lengi sem þeir muna. Þeir byrjuðu báðir leikaraferilinn árið 1967 og hafa verið saman á leiksviði sem og á sjónvarpsskjá. Nú vinna þeir saman á Flugsafninu.
Vinir Aðalsteinn Bergdal og Gestur Einar Jónasson hafa þekkst svo lengi sem þeir muna. Þeir byrjuðu báðir leikaraferilinn árið 1967 og hafa verið saman á leiksviði sem og á sjónvarpsskjá. Nú vinna þeir saman á Flugsafninu. — Morgunblaðið/Malín Brand
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flugsafn Íslands á Akureyri er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Þar eru einstakar flugvélar sem flestar hafa mikið gildi fyrir flugsögu Íslands.

Flugsafn Íslands á Akureyri er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Þar eru einstakar flugvélar sem flestar hafa mikið gildi fyrir flugsögu Íslands. Þar er til dæmis stjórnklefi Gullfaxa, fyrstu þotu Íslendinga, björgunarþyrlan TF-SIF, TF-SYN Fokker F-27 frá Landhelgisgæslunni og svo mætti lengi telja. Starfsmennirnir tveir á safninu eru líka einstakir en þeir eru æskuvinir og báðir atvinnuleikarar.

Malín Brand

malin@mbl.is

Þeir Gestur Einar Jónasson og Aðalsteinn Bergdal hafa unnið saman í ófá skipti á ævinni. Þeir eru báðir atvinnuleikarar að norðan og hafa leikið saman hér og þar. Hvorugan þeirra hefði þó órað fyrir því fyrir einhverjum árum eða áratugum að þeir ættu eftir að vinna saman í flugsafni. Sú er einmitt raunin í sumar og hafa þeir báðir einstaklega gaman af samstarfinu á safninu.

Heilsusamlegt að vera á safni

Gestur Einar hefur óbilandi flugáhuga og byrjaði að vinna á Flugsafninu árið 2008 og hefur unnið þar svo gott sem alla tíð síðan og verið eini starfsmaður safnsins. Það var ekki fyrr en í sumar sem Aðalsteinn kom til sögunnar en aðdragandinn er þessi:

Árið 2011 lenti Aðalsteinn í mjög alvarlegu slysi þegar ekið var á hann í Lækjargötu í Reykjavík. Það þykir mesta mildi að hann skyldi í fyrsta lagi lifa þetta af og í öðru lagi að hann skyldi ná sér eins vel eftir slysið og raun ber vitni. Hann hefur verið í stöðugri endurhæfingu og til stóð að í sumar héldi endurhæfingin áfram. Í raun og veru má segja að endurhæfingin hafi alla vega tekið á sig aðra mynd.

„Það þarf alltaf að útvega starfsfólk á safnið yfir sumartímann,“ útskýrir Gestur Einar sem stakk upp á því að félagi hans tæki starfið að sér og tók Aðalsteinn vel í hugmyndina. „Ég hefði ekki getað fengið betri mann en Alla,“ segir Gestur Einar og ekki er annað að sjá en starfið geri Aðalsteini gott. Báðir eru þeir léttir á fæti og hraustir að sjá og ekki hægt að draga heilunarmátt verunnar á Flugsafninu í efa sé horft á það.

Æskuvinir og kollegar

Þessir tveir starfsmenn Flugsafns Íslands hafa þekkst og verið vinir frá því þeir muna eftir sér. „Við ólumst upp í sama hverfi,“ segir Aðalsteinn en auk þess unnu þeir saman í leiklistinni í fjöldamörg ár. Þeir byrjuðu báðir að leika árið 1967. „Við höfum alltaf verið vinir,“ segir Gestur Einar og Aðalsteinn tekur undir: „Og ætlum að halda þetta út alveg fram í rauðan...“ Án efa á sumarið á Flugsafninu eftir að þjappa þeim enn betur saman.

Aðalsteinn bregður stundum á leik sem trúðurinn Skralli og gerir það við ýmis tækifæri. Trúðurinn hefur nokkrum sinnum brugðið á leik í Flugsafninu en þó ekki á venjulegum dögum heldur á sjálfan flugdaginn. Flugdagurinn er haldinn á hverju sumri, nú síðast 21. júní, og þá mætti Skralli á svæðið og tók annan flugtímann sinn á Piper Cub. Betur fór en á horfðist en ljóst er að Skralli á margt ólært í fluginu, enda eru tveir tímar engin ósköp.

Sprella inn á milli

Þó svo að leikarastarfið snúist að sjálfsögðu ekki um grín og glens alla daga er óhjákvæmilegt að spyrja þessa tvo hvort þeir detti einhvern tíma í ærslagang á venjulegum vinnudegi á Flugsafninu. „Jújú, það kemur nú alveg fyrir. Við rifjum stundum upp gamla takta og þá hlæjum við tveir bara og það er allt í lagi,“ segir Gestur Einar. „Fólk sem kemur hingað þekkir okkur stundum og veit að við erum leikarar. Kona sagði við mig um daginn: „Hva, ert þú hér?“ og ég játti því. Þá spurði hún: „Og af hverju ert þú ekki að leika?“ Þá segir maður bara söguna eins og hún er,“ segir Gestur Einar sem er hvergi nærri hættur að leika þó svo að hann njóti þess til fulls að vinna á Flugsafninu. Þeir Aðalsteinn unnu saman í leikhúsinu í fjöldamörg ár en Gestur Einar hóf störf hjá Ríkisútvarpinu og hætti í leikhúsinu. Þar vann hann í um 23 ár, allt til ársins 2008 þegar staða hans hjá útvarpinu fyrir norðan var lögð af, mörgum hlustendum til mikilla vonbrigða. Þá var hann farinn að vinna í hlutastarfi á Flugsafninu en hefur verið í fullu starfi þar svo gott sem síðan, eins og fyrr kom fram. Báðir eru þeir þó trúir leiklistargyðjunni sem menn yfirgefa ekki svo auðveldlega eftir að þeir hafa eitt sinn gengið henni á hönd. Aðalsteinn hefur leikstýrt töluvert og saman hafa þeir meðal annars leikið í þáttunum Hæ gosi og í leiksýningum á Norðurlandi.

Eftir atvinnuleik í 47 ár hlýtur að vera skemmtileg áskorun að fræða gesti um flugvélar á þessu merka safni. „Það liggur við að maður segi að þetta sé hryllilega skemmtilegur vinnustaður,“ segir Aðalsteinn. „Svo koma margar flughetjur á svæðið og það eru sagðar sögur og drukkið alveg gríðarlega mikið kaffi. Hingað koma sögulegar flugvélar eins og Þristurinn og karlar að sunnan sem sinna viðhaldinu og hér skapast skemmtileg tengsl. Þetta er bara yndislegt,“ segir leikarinn og flugáhugamaðurinn Gestur Einar Jónasson um starfið á Flugsafni Íslands þar sem hann nýtur góðs félagsskapar leikarans Aðalsteins Bergdal í sumar.

Harrison Ford vill eignast sögulegan sýningargrip

Margir hafa notið þess að skoða einstaklega vel uppgerða sjóflugvél sem er á Flugsafni Íslands. Hún er af gerðinni DHC-2 Beaver frá árinu 1960. Vélin er í eigu flugkappans Arngríms B. Jóhannssonar en vélin er ein sú fegursta af þessari gerð sem til er. Það fór ekki framhjá leikaranum og flugáhugamanninum Harrison Ford sem komið hefur á flugsafnið og ítrekað óskað eftir að fá að kaupa vélina. Eigandinn gaf lítið fyrir það, enda er vélin ekki föl. Víst þykir að Ford geri aðra tilraun til að bjóða í vélina þegar hann kemur hingað til lands í sumar vegna leiks í nýjustu Stjörnustríðsmyndinni.