Guðrún Benediktsdóttir fæddist í Vigur í Ísafjarðardjúpi 24.5. 1925. Hún lést á Landakoti hinn 22.6. 2014.
Foreldrar hennar voru Fanney Gunnlaugsdóttir, f. 6.9. 1903, d. 14.11. 1989, og Benedikt Helgi Ásgeirsson, f. 3.4. 1893, d. 11.2. 1948. Hún fór sjö ára til Ragnhildar Jakobsdóttur í Ögri og ólst þar upp til 16 ára aldurs. Systkini hennar voru: Bogi, f. 4.7. 1926, d. 22.1. 1983, Kristrún, f. 26.6. 1927, d. 5.12. 1997, Guðmundur Halldór, f. 3.9. 1929, d. 24.3. 2009, Ásgeir Guðjón, f. 2.11. 1931, d. 9.5. 2008, og Ingibjörg, f. 2.11. 1931. Eiginmaður Guðrúnar var Þórður Bjarni Guðmundsson, f. 30.7. 1922 á Folafæti í Súðavíkurhreppi, d. 2.9. 1978. Foreldrar hans voru Guðrún Sigurðardóttir, f. 16.5. 1901, d. 21.6. 1999, og Guðmundur Salómonsson, f. 3.8. 1894, d. 9.4.1963. Börn þeirra eru: 1) Sigurður Borgar, f. 25.11. 1945, maki Helga S. Jóakimsdóttir, börn þeirra eru Helga, Halldór og Hildur, barnabörnin eru átta. 2) Benedikt Helgi, f. 11.9. 1949. Börn hans og Sveinsínu S. Sigurgeirsdóttur eru Haukur og Sigurbjörg, barnabörnin eru fimm og barnabarnabörnin eru tvö. Börn hans og Jóhönnu Freyju Benediktsdóttur eru Róbert Logi, Rúnar Ásþór og Bjarni Þór, barnabörnin eru 11. 3) Sjöfn, f. 23.7. 1951, maki Skúli Bjarnason, börn þeirra eru Guðrún, Lilja Brynja, Ómar Þór og Maríanna, barnabörnin eru 10. 4) Guðmundur, f. 15.12. 1955, maki Gunnhildur Gunnarsdóttir, börn þeirra eru Gunnar, Agnes Ásta og Kári Steinn, börn hans og Kolbrúnar Friðriksdóttur eru Aron Birkir, Þórður Bjarki, Friðrik og Gunnar Gaukur, barnabörnin eru fjögur.
Guðrún starfaði fyrstu starfsár sín sem vinnukona að Garðstöðum í Ögursveit. Ásamt húsmóðurstörfum vann hún ýmis störf og síðar í fisk- og rækjuvinnslu Einars Guðfinnssonar hf. í Bolungarvík. Guðrún fluttist til Reykjavíkur árið 1982. Þar starfaði hún hjá sælgætisverksmiðjunni Ópal, síðar Nóa Síríus til ársins 2004.
Útför Guðrúnar fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 3. júlí 2014, kl. 13. Jarðsett verður í Hólskirkjugarði í Bolungarvík 5. júlí 2014 kl. 15.
Í dag verður jarðsungin okkar elskulega móðir og tengdamóðir, Guðrún Benediktsdóttir, sem lést á Landakoti 22. júní síðastliðin eftir erfið veikindi, södd lífdaga. Ástarþakkir fyrir samfylgdina í gegnum árin, alla hjálpina, öll matar- og kaffiboðin, þína frábæru eldamennsku og kökur svo maður tali nú ekki um pönnukökurnar sem voru þær bestu í heimi. Alltaf varstu tilbúin að aðstoða okkur með börnin okkar og alltaf svo ráðagóð. Eftir að pabbi dó, árið 1978, áttum við aðfangadag saman og var síðasta heimsókn þín til okkar á aðfangadag síðasta árs. Þá varstu orðin lasin og áttir mjög erfitt með að komast upp stigana, þú lést þig hafa það þó að það tæki þig 10 mínútur á eftir til að ná andanum til að tala. Þú máttir ekki heyra á það minnst að fara til læknis fyrr en eftir áramótin því þú ætlaðir að vera heima yfir þessi jól og áramót, hitta ættingjana og ég tala nú ekki um hann Gunnar Gauk sem þú vildir kveðja áður en hann færi aftur til Grikklands þar sem hann er í námi. Hinn 2. janúar síðastliðinn mátti hringja í lækni og í kjölfarið varstu lögð inn á hjartadeild Landspítala mikið veik, síðar flutt á Landakot til endurhæfingar, en náðir ekki að komast aftur heim. Þú varst yndisleg móðir, tengdamóðir, amma og langamma. Þú varst með stórt hjarta og allir sem þekktu þig elskuðu þig. Við munum sakna þín en við vitum að þú ert komin til pabba, foreldra þinna og systkina í Sumarlandinu. Hafðu þökk fyrir allt.
Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Guð vaki yfir þér og geymi þig þar til við sjáumst aftur.
Sjöfn og Skúli.
Þegar mamma fæddist uppi í risi í Vigur voru Fanney amma og Benedikt afi vinnuhjú í Vigur. Þegar mamma var sjö ára veiktist Fanney amma og var mömmu þá komið fyrir hjá Ragnhildi Jakobsdóttur óðalsbónda í Ögri við Ísafjarðardjúp og var hún þar þangað til hún var 16 ára. Það var erfitt fyrir barn að fá ekki að alast upp í ástríki foreldra með systkinum sínum, og hafa minningar mömmu frá þessu tímabili verið henni þungbærar.
Þegar mamma varð 16 ára og sjálfráða réði hún sig í vist hjá miklu sómafólki, þeim Hafliða Ólafssyni og Líneik Árnadóttur að Garðstöðum, en Líneik var bróðurdóttir Ragnhildar í Ögri. Þar var vistin góð og mamma var hjá þeim hjónum þangað til hún flutti til Bolungarvíkur, tvítug að aldri. Skólaganga mömmu var hvorki löng né ströng, hún lærði að lesa og skrifa heima í Ögri og var tvo vetrarparta í heimavistarskólanum í Reykjanesi.
Í Bolungarvík kynntist mamma pabba, Þórði Bjarna Guðmundssyni. Hann var fæddur að Folafæti 30. júlí 1922 og lést í Bolungarvík 2. september 1978. Það er mér minnisstætt úr barnæsku að mamma var alltaf til staðar fyrir okkur systkinin en pabbi var alltaf á sjó, oft í löngum úthöldum á síld eða í flutningasiglingum. Ég kynntist pabba í raun ekki fyrr en síðustu árin sem hann lifði, en hann lést aðeins 56 ára að aldri eftir erfið veikindi. Mamma hafði því verið ekkja í 36 ár en alltaf fjárhagslega sjálfstæð og búið ein, nema fyrstu árin eftir að pabbi dó, en þá bjó tengdamóðir hennar hjá henni í nokkur ár áður en mamma flutti suður.
Á þessum tímamótum þjóta minningabrot um hugann og sama hvaða atvik rifjast upp er erfitt að hugsa sér hvernig hægt væri að hugsa betur um börnin sín en hún mamma hugsaði um okkur. Mamma var vel gefin og með ótrúlega gott minni fram til æviloka. Hún gat sagt frá atvikum sem gerðust fyrir 80 árum eins og gerst hefðu í gær.
Ég var yngstur okkar systkinanna og sennilega dekraður á allan hátt. Systkini mín segja stundum að ég hafi fengið allt sem þau ekki fengu. Ég man ekki til þess að mig hafi nokkru sinni skort neitt, alltaf lét hún mig fá það sem ég bað um, en hún fór afar vel með fjármuni þrátt fyrir mikið örlæti.
Nú er lífshlaupi elsku mömmu lokið, hún hefur kennt okkur á sinn hátt hvernig hægt er að bera umhyggju fyrir öðrum af hógværð og æðruleysi án þess að hugsa um eigin hagsmuni. Það verður undarlegt að geta ekki lengur kíkt til mömmu í kaffi og pönnukökur, en hún var meistari í pönnukökubakstri og alltaf gestrisin heim að sækja.
Mömmu verður sárt saknað af mörgum. Nú er hún komin á nýjan og betri stað en minningin lifir áfram.
Guðmundur Þórðarson
og fjölskylda.
Við Gummi giftum okkur árið 1975 og ekki var hægt að hugsa sér yndislegri tengdaforeldra. Doddi lést langt um aldur fram árið 1978 eftir erfið veikindi. Gunna var orðin ekkja rétt um fimmtugt og bjó alla tíð ein eftir það. En duglegri og áræðnari konu er vart hægt að finna. Hún sinnti öllu sínu ein og óstudd enda sjáfstæð kona með eindæmum. Sem dæmi fór hún allra sinna ferða með strætó hér á höfuðborgarsvæðinu en ef um lengri ferðir var að ræða var það með rútu eða í flugi hvert sem var í heiminum. Ekki mátti nefna að fá að sækja hana eða keyra á áfangastaði. Hún var bara vön að bjarga sér á eigin spýtur og gerði það óspart.
Allir voru svo velkomnir í hennar lífi. Hún var sérlega barngóð og mikill barnavinur, enda hændust öll börn að henni. Gunna flutti frá Bolungarvíkinni sinni til Reykjavíkur 1982. Hún seldi húsið sitt fallega á Höfðastígnum nokkru síðar. Gunna flutti fyrst í Engihjallann, þar sem hún bjó í nokkur ár. Hún fékk vinnu í sælgætisverksmiðju þar sem hún vann til fjölda ára og miklu lengur en almennt gerist. Hún lét aldurinn ekki aftra sér og vann eins lengi og hún hafði krafta til enda góður og vinsæll vinnukraftur, dugleg og samviskusöm. Það var oft fjör og hamagangur þegar við og allir strákarnir okkar fjórir komum í heimsókn í Spóahólana í litlu notalegu íbúðina sem Gunna keypti sér og bjó lengst af í, þar til hún flutti í Fróðengi vegna veikinda sinna. Strákarnir okkar elskuðu að fara til Gunnu ömmu, hún var líka svo yndisleg við þá. Bakaði pönnsur og gerði alls konar góðgæti handa þeim. Gleðigjafi sem mundi alla afmælisdaga afkomenda sinna og kom alltaf færandi hendi alveg fram á hennar síðasta dag. Á engan mátti halla. Ég var þar ekki undanskilin.
Hún lagði mikla áherslu á það við mig að ég væri og mundi alltaf vera tengdadóttir hennar þrátt fyrir að við Gummi værum skilin. Það segir mér svo mikið um hvað Gunna var heil og traust manneskja sem stóð alltaf með sjálfri sér sama hvað á dundi í hennar lífi og okkar sem hana varðaði. Betri samferðakonu er vart hægt að hugsa sér.
Með þessum fáu orðum vil ég minnast og þakka elskulegu Gunnu tengdamóður minni fyrir allt og allt á ferðalagi okkar saman hér á jörð. Ég veit að við eigum eftir að ferðast saman í öðrum víddum síðar. Elsku Gunna, drottinn geymi sálu þína.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson)
Einlægar samúðarkveðjur til ykkar, Siggi, Benni, Sjöfn, Gummi og aðstandendur
Kolbrún Friðriksdóttir.
Börnin okkar Benna, þau Haukur og Sigurbjörg, nutu þess að alast upp við ástríki ömmu sinnar í Bolungarvík en það gerði líka sonur minn, Sigþór. Þótt hann væri ekki blóðskyldur Gunnu tók hún hann að sér og varð amma hans eins og hinna barnanna, fyrir það get ég aldrei fullþakkað elsku Gunnu minni – það var okkur öllum mikils virði.
Gunna lagði mikið upp úr því að halda hópnum sínum vel saman og treysta fjölskylduböndin, það gerði hún með miklum sóma allt sitt líf. Það verður því skrítið að eiga ekki eftir að heyra í henni oftar.
Í síðustu ferð minni til Reykjavíkur þegar við föðmuðumst og kvöddum hvor aðra vissum við báðar að það yrði í síðasta sinn, þannig varð faðmlagið þéttara og kveðjan lengri. Ég sé Gunnu mína fyrir mér ganga glaða á móti Dodda sínum heim í Víkina.
Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til barnanna hennar Gunnu og fjölskyldna þeirra. Megi fallegar minningar um yndislega ættmóður sefa sárasta söknuðinn.
Sveinsína S. Sigurgeirsdóttir, Ísafirði.
Við systkinin vorum heppin að fá að alast upp í miklu samneyti við ömmu. Hún var fastur punktur í okkar tilveru og tók mikinn þátt í viðburðum í okkar daglega lífi. Alltaf var jafn gott að koma til hennar, hún bauð upp á heimsins bestu pönnukökur og hvergi smökkuðust einfaldir hlutir eins og ristað brauð og te jafn vel og hjá henni. Allt sem amma gerði gerði hún vel. Hún mundi fram á síðasta dag eftir öllum afmælisdögum fjölskyldumeðlima og vina og ekki eru afkomendur hennar fáir. Þá var amma í góðu sambandi við fjölskyldu og vini og lagði á sig ferðalög út í heim til að heimsækja börn og barnabörn sem bjuggu erlendis og oft á tíðum einsömul þrátt fyrir að vera ekki talandi á aðra tungu en íslensku. Við systkinin erum þakklát fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman.
Lífið verður fátæklegra án ömmu en við vitum að hennar tími var kominn, hún var orðin þreytt. Eftir sitja minningar um yndislega ömmu sem átti alltaf nægan tíma fyrir alla.
Guðrún, Lilja,
Ómar og Maríanna.
Að kveðja einhvern sem manni þykir vænt um er alltaf erfitt. Samband okkar ömmu einkenndist af ást og hlýju, hún sýndi mér alltaf hvað henni þótti vænt um mig og mína og ég vona að hún hafi vitað hvað mér þótti undurvænt um hana.
Í minningunni var Gunna amma best, það var hún sem hélt tengingunni við föðurfólkið mitt eftir að leiðir foreldra minna skildu, það var amma sem hélt utan um sambandið við okkur Sibbu, systur mína, og passaði að okkur vanhagaði ekki um neitt.
Við vorum svo heppin að þegar við vorum að alast upp á Ísafirði bjó amma í Bolungarvík.
Þegar ég sit hér og rifja upp minningarnar um ömmu mína kemur upp í hugann ferðin sem við Símon heitinn, frændi minn, fórum á hjólum þá ungir drengir út í Vík til ömmu. Okkur var að sjálfsögðu tekið opnum örmum og amma var ekki lengi að skella í pönnukökur fyrir okkur. Símon hefur nú eflaust tekið vel á móti ömmu og fær kannski pönnukökur eins og henni einni var lagið.
En ömmur gera meira en færa gjafir og baka pönnukökur, þær rækta sambönd og þær hlúa að fólkinu sínu, þær gleðjast með því og breiða út faðminn og hugga ef eitthvað bjátar á. Þannig var Gunna amma mín, hlý og góð. Það var auðvelt fyrir fólk að laðast að henni, þannig varð hún, óafvitandi, Gunna amma nokkurra frændsystkina minna í móðurætt. Þegar ég, á unglingsaldri, eignaðist lítinn bróður sammæðra sem átti ekkert bakland í sinni föðurfjölskyldu var amma mætt og hún gat alveg bætt honum Sigþóri í hópinn sinn eins og hann væri hennar eigin.
Amma mín var einstök kona, hún hafði svo ljúfa nærveru að maður gat alveg gleymt sér í návist hennar. Hún hafði gaman af að segja sögur, spjalla og fá fréttir af fólkinu sínu og þó að aldurinn færðist yfir fylgdist hún vel með og gleymdi aldrei afmælisdögum afkomendanna. Aldrei brást símhringingin frá ömmu og hamingjuóskir á þeim dögum.
Eftir að amma flutti búferlum frá Bolungarvík til Reykjavíkur hittumst við sjaldnar en eftir að við Eyrún fluttum suður til Keflavíkur með börnin okkar, Benna og Ingunni, reyndum við að hitta ömmu eins oft og færi gafst. Svo bættist í hópinn yndislega afastelpan mín, Júlíana, og var dásamlegt að sjá hvað þær náðu vel saman hún og langalangamma.
Það var alveg sama hvernig við hittum á ömmu, hvort hún var við góða heilsu eða sárlasin, alltaf tók hún eins á móti okkur, með útbreiddan faðminn. Að lokum langar mig að senda mínar dýpstu samúðarkveðjur til elsku pabba míns, systkina hans og fjölskyldna, og ég vil þakka Sjöfn föðursystur minni þá einstöku umhyggju sem hún hefur sýnt ömmu minni alla tíð.
Elsku Gunnu ömmu minni þakka ég af alhug allt sem hún var mér og mínu fólki, ég veit að himnaríki er fallegra eftir komu hennar þangað. Sofðu rótt, elsku amma mín. Þinn,
Haukur, Eyrún
og fjölskylda.
Ég man oft að þegar ég kom með fjölskyldunni í borgarferð var iðulega fyrst stoppað í Spóahólunum, þar var tekið vel á móti manni með tilheyrandi veitingum. Ég man svo vel eftir litlu geymslunni þar sem var að finna m.a. Ópal í öllum regnbogans litum og fleira góðgæti og fannst manni ekki leiðinlegt að fá smá sælgæti með sér úr vinnunni hennar ömmu. Ég á margar góðar minningar úr Spóahólunum, ég man að oft í seinni tíð kom ég til þín og sat við kringlótta eldhúsborðið og þú varst að hafa eitthvað til, við drukkum te og gæddum okkur á góðgæti og spjölluðum um lífið og tilveruna. Þú varst nú ekki par sátt þegar fólk vildi eingöngu fá vatn þegar það kom í heimsókn, skildir ekkert í þessu að það vildi ekki þiggja eitthvað annað. Þú varst mjög gestrisin og fannst gaman að fá fólk til þín í heimsókn enda var iðulega gestagangur hjá þér.
Ótrúlega sterk og harðdugleg kona sem þú varst, amma mín, aldrei heyrði maður þig kvarta yfir einu né neinu, tókst lífinu með stakri ró. Þú varst skemmtilega þrjósk, nægjusöm og einstaklega vel að þér í ættfræði og þekktir afkomendur allra sem þér voru nánir og fleiri, sem og varstu minnug á alla afmælisdaga afkomenda þinna sem og fleiri. Það var alveg ótrúlegt, slóst aldrei slöku við í því.
Þegar þú fluttir í Fróðengi gerðir þú þitt besta í stöðunni, þó svo að þú værir ekki alveg sátt að vera flutt úr Breiðholtinu. Þú varst alltaf svo þakklát þegar ég kom í heimsókn með Ísak Helga, hann fór alltaf beint inn í skáp og náði í dótakassann. Þú hafðir orð á því hvað þér fannst vænt um að börnunum fyndist ennþá gaman að leika með þetta eldgamla dót eins og þú sagðir. En gamalt dót er dót með sál sem er varið í, amma mín.
Ég man þegar þú sagðir mér að þér fyndist þú hafa unnið of lengi, hefðir viljað hafa ferðast meira þegar þú varst hætt að vinna en værir orðin of gömul. Síðustu mánuðir hafa verið þér erfiðir, það er erfitt að vera föst einhvers staðar. Ég veit að þú ert komin á góðan stað núna sem þér líður vel á.
Eigðu fallega drauma amma mín, ég mun líta upp til þín. Amma, ég vil þakka þér fyrir samverustundirnar í gegnum árin, minningarnar munu lifa í hjarta mínu að eilífu. Hvíl í friði.
Hildur Sigurðardóttir.
Ég kynntist Gunnu frekar seint á lífsleiðinni, vissi þó alltaf af henni, þar sem amma mín, Jóna, og Fanney, móðir Gunnu, voru systur. Ég fékk áhuga á ættfræði eins og svo margur Íslendingurinn og hóf að safna saman ætt minni frá þeim langafa og langömmu frá Folafæti við Ísafjarðardjúp. Þegar ég var að sigla í strand með verkefnið var mér bent á að tala við Gunnu, hún gæti vitað eitt og annað um ættina.
Það var svo mikil lífsreynsla að fá að koma í heimsókn í Fróðengið, sitja yfir kaffibolla og spjalla um allt og ekkert.
Maður kom ekki að tómum kofunum hjá henni Gunnu, hún vissi nánast allt um sína ætt og mannlíf á norðanverðum Vestfjörðum. Um sitt fólk vissi hún hvert smáatriði, alla afmælisdaga, fermingar, giftingar og svo hvað það hafði fyrir stafni. Hún fræddi mig um mannlíf, atvinnuhætti og aðbúnað fólks í Bolungarvík á hennar lífsleið. Hún var stöðug uppspretta af sögum og sögnum, komin hátt á níræðisaldur, skýr í máli og skilmerkileg, augun lifnuðu við þegar hún talaði um liðna tíð, fólkið sitt sem henni þótti svo vænt um. Ég verð þér að eilífu þakklátur, Gunna mín Bensa, að hafa fengið þessar skemmtilegu stundir með þér.
Allri fjölskyldu og ættingjum Guðrúnar Benediktsdóttur votta ég mína dýpstu samúð.
Ómar.