Klárir Það er við hæfi að karlarnir hressu úr Sniglabandinu troði upp á Landsmóti hestamanna, enda fjölhæfir listamenn í meira lagi og skemmtilega sveitó.
Klárir Það er við hæfi að karlarnir hressu úr Sniglabandinu troði upp á Landsmóti hestamanna, enda fjölhæfir listamenn í meira lagi og skemmtilega sveitó. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skemmtanastjóri landsmótsins hefur gætt þess að allir finni þar eitthvað við sitt hæfi. Skemmtikraftar troða upp með tónlist og atriði fyrir börn og fullorðna.

Það var fyrir hálfgerða tilviljun að Hreimur Örn Heimisson og Róbert Dan Bergmundsson tóku það að sér að vera skemmtanastjórar Landsmóts hestamanna í ár.

„Þetta bar þannig til að landsmótsnefnd hafði falast eftir að fá hljómsveitina okkar, Made in sveitin, til að spila á laugardagsballi mótsins. Urðum við fyrir valinu því nefndinni var mjög í mun að fá heimamenn til verksins,“ segir Hreimur. „Við héldum á fund nefndarinnar til að ræða tónleikana og fyrr en varði var samtalið farið að snúast um hvað hefði mátt gera öðruvísi á fyrri landsmótum. Við sögðumst boðnir og búnir að vera skipuleggjendum innan handar ef vantaði meiri aðstoð, og svo gerist það að okkur er einfaldlega boðið að taka þetta djobb að okkur.“

Undir skemmtanastjóra heyrir öll sú fjölbreytta afþreying sem í boði verður á landsmótssvæðinu. Þarf ekki bara að skipuleggja hina stóru tónleika helgarinnar heldur einnig minni tónlistar- og skemmtiatriði. Aðrir sjá um gegnumgangandi afþreyingu eins og leiktækjasvæði barnanna og hestvagnaferðir.

Segir Hreimur skemmtidagskrána á hátíð af þessu tagi þurfa að hafa langan aðdraganda. Í þetta skiptið hafi undirbúningurinn hafist upp úr áramótum en hefði mátt byrja enn fyrr.

Tónlistin byrjar á fimmtudag

Fyrstu dagar landsmótsins í ár snúast nær eingöngu um keppnisgreinarnar og eru knapar og hestar að frá því snemma morguns og fram á kvöld. Frá og með fimmtudeginum skapast meira svigrúm í dagskránni og um leið fara tónleikar og skemmtiatriði að leika stærra hlutverk. „Fyrsta tónlistaratriði hátíðarinnar er við formlega setningu mótsins á fimmtudeginum en þar munu Öðlingarnir, hópur manna úr Karlakór Rangæinga, syngja fyrir gesti. Á föstudag opnar barnasvæðið með leiktækjum, söngatriðum og skemmtikröftum. Tvö risatjöld eru á svæðinu; annað fyrir veitingar og hitt fyrir landsmótsmarkaðinn, og verða þar tónlistarmenn á ferðinni alla helgina.“

Segir Hreimur að hugmyndin sé að reyna að skapa á landsmótinu vinalega ródeó-stemningu. „Hvert sem farið er á mótinu ætti fólk að geta hlustað á skemmtilega tónlist eða heyrt óminn frá hressum harmonikkuleikara. Landsmótið á að hafa upp á eitthvað að bjóða fyrir alla – líka þá gesti sem hafa kannski ekki brennandi áhuga á hestunum sjálfum heldur eru fyrst og fremst að fylgja ættingjum sínum á mótið og standa við bak þeirra.“

Meðal listamanna sem fram koma má nefna Gunnar Óla og Hebba úr Skítamóral sem troða upp á fimmtudagskvöldinu, Góa Karlsson sem ætlar að skemmta börnunum og Eyþór Inga sem tekur við af Maid in sveitin á laugardagstónleikunum. Eiríkur Hafdal og Steini Bjarka spila á gítar fyrir gesti, Matti Stefáns mætir með fiðluna og Kjartan Valdimars spilar með honum gleðilega tónlist, Sniglabandið lætur sig ekki vanta né heldur Sverrir Bergmann og Halldór fjallabróðir..

„Svo mæta nokkrir hressir krakkar úr Ísland got talent og taka lagið. Má þar nefna Elvu Maríu Birgisdóttur, Laufey Lín Jónsdóttur og Aron Hannes Emilsson. Palli JóJó sýnir líka listir sínar.“

Sprengjulaust sprengjugengi

„Sprengjugengið úr háskólanum ætlar líka að mæta á svæðið og bæði fræða börnin og skemmta þeim. Þar sem hestar eru á svæðinu má sprengjugengið reyndar ekki vera með neinar sprengingar, en þau hafa lofað okkur engu að síður líflegri og lærdómsríkri upplifun.“

Eins og lesendur sjá hefur skemmtidagskráin verið sett saman með góðu jafnvægi atburða, með skemmtikröftum sem höfða til breiðs hóps. Hreimur segir slíkar áherslur reynast vel á fjölmennu og fjölskylduvænu móti. „Við viljum hafa jafna stígandi alla hátíðina og láta allt renna ljúft og vel út í gegn frekar en að leggja ofuráherslu á einhverjar kanónur skemmtanaheimsins. Landsmótið á heldur ekki að vera mikil skrallveisla með látum langt fram á nótt og á stærstu tónleikadögunum er ekki spilað miklu lengur en til tvö um nóttina og tónlistarmennirnir af þeirri gerðinni að gestir geta notið þess jafnt að dansa við söng og hljóðfæraleik eða einfaldlega sitja í rólegheitum og hlusta á vandaðan tónlistarflutning.“ ai@mbl.is

Muna að taka tillit til HM

Ein af áskorunum skemmtanastjórans á Landsmóti hestamanna í ár er samkeppnin við heimsmeistaramótið í knattspyrnu. Raunar þarf Hreimur sjálfur að missa af einum leiknum á laugardag því þá hefur hann lofað að taka þátt í hópreið mótsgesta.

Mótshaldarar gera sér fulla grein fyrir að sumir gesta eru ekki síður smitaðir af knattspyrnubakteríunni en hestabakteríunni. Hreimur segir það þó ekki vera áhyggjuefni, fólk er fyrst og fremst komið á landsmót til þess að vera hluti af þeirri hátíð.

„Knattspyrnuáhugamenn ættu ekki að hafa áhyggjur, við munum tryggja það að leikirnir verða aðgengilegir.“