Myllan er meðal þeirra fyrirtækja sem eru í eigu ÍSAM.
Myllan er meðal þeirra fyrirtækja sem eru í eigu ÍSAM. — Morgunblaðið/Golli
Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup Kristins, sem er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, á innflutnings- og framleiðslufyrirtækinu ÍSAM.

Samkeppniseftirlitið hefur heimilað yfirtöku Kristins, félags í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, á ÍSAM (Íslensk-ameríska). Fram kemur í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að fyrirtækin starfi ekki á sama markaði og hafi samruninn því ekki áhrif á samkeppni.

Sigurbjörn Magnússon, lögmaður Kristins, segir í samtali við Morgunblaðið að verið sé að hnýta saman lausa enda og að búast megi við því að nýir eigendur fái fyrirtækið í hendur eftir nokkrar vikur.

ÍSAM, sem flytur m.a. inn vörur frá Procter & Gamble, er veltumesta heildverslun landsins en innan samstæðunnar eru auk þess framleiðslufyrirtækin Myllan, ORA, Frón og Kexsmiðjan. Fyrirtækið velti 11,1 milljarði króna árið 2012 og hagnaðist um 194 milljónir króna. Til samanburðar veltu Bananar 7,5 milljörðum á sama tíma og 1912, móðurfélag Nathans & Olsen og fleiri félaga, 5,3 milljörðum króna, samkvæmt bókinni 300 stærstu. Starfsmenn ÍSAM eru um 370, samkvæmt gögnum Samkeppniseftirlitsins.

Upplýst var í lok maí að Kristinn hefði fest kaup á ÍSAM. Seljendur fyrirtækisins eru fjölskylda Berts Hanson en hann stofnaði félagið árið 1964 eftir að hafa flutt til Íslands frá Bandaríkjunum ásamt konu sinni Ragnheiði Jónasdóttur.

Guðbjörg og fjölskylda hafa lengi verið aðaleigendur útgerðarinnar Ísfélags Vestmannaeyja. Hún kom að kaupum á Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, árið 2009 og á síðasta ári keypti Kristinn meirihluta í Kvos, móðurfélagi Odda.