[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Sala á nýjum vörubílum tók mikinn kipp á fyrri helmingi ársins í samanburði við sömu mánuði í fyrra.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Sala á nýjum vörubílum tók mikinn kipp á fyrri helmingi ársins í samanburði við sömu mánuði í fyrra.

Þannig seldust 44 nýir vörubílar fyrstu sex mánuði ársins en 28 sömu mánuði í fyrra, eins og sýnt er á grafinu hér til hliðar. Það er 57% aukning í sölu milli ára.

Tölurnar eru sóttar í greiningu Brimborgar og segir Egill Jóhannsson, forstjóri fyrirtækisins, að reikna megi með að nýr vörubíll kosti að meðaltali um 20 milljónir.

Samkvæmt því keyptu íslensk fyrirtæki nýja vörubíla fyrir tæplega 900 milljónir króna á fyrri hluta ársins. Tekið skal fram að nær engin þeirra eru í byggingariðnaði.

Nýjar rútur kosta 40 milljónir

Að sögn Egils má áætla að ný rúta kosti að meðaltali 40 milljónir króna en notuð rúta 15-20 milljónir og er síðarnefnda talan lauslega áætluð. Egill telur söluaukninguna í nýjum vörubílum til marks um bata í hagkerfinu, enda sé um verulega fjárfestingu að ræða.

Hann tekur fram að langflestir þessara vörubíla séu flutningabílar, auk þess sem eitthvað sé um dráttarbíla og sorpbíla. Innflutningur á vörubílum til efnisflutninga hafi hins vegar enn ekki tekið við sér. „Nú eru nánast engir nýir vörubílar fluttir inn sem eru með palli og ætlaðir til efnisflutninga. Að jafnaði hafa samtals selst 150-200 vörubílar á ári, flutningabílar og vörubílar með palli. Það hefur aldrei áður orðið jafn langt samdráttarskeið í sölu á vörubílum og hefur verið frá efnahagshruninu.“

Stefán Gunnarsson, framkvæmdastjóri Guðmundar Jónassonar, segir aukna eftirspurn vegna fjölgunar ferðamanna hafa ýtt undir endurnýjun á flota fyrirtækisins, sem er 26 rútur. Innan þriggja til fjögurra ára stefni fyrirtækið á að meðalaldur flotans verði orðinn 4-5 ár en hann er nú 8-10 ár.

„Það er þumalputtaregla að sætið í nýjum hópferðabílum kosti nú um 800.000 krónur. Það þarf því að hafa mikið að gera og selja á góðu verði til að fá upp í kostnaðinn. Bílarnir sem við höfum keypt á síðustu misserum eru 16-57 sæta. Sú breyting hefur orðið að fyrir 10-15 árum höfðum við sjö mánuði á hverju ári til að dunda við bílana og hafa þá tilbúna fyrir 4-5 mánaða vertíð. Nú er hins vegar vertíð árið um kring. Maður getur því ekki leyft sér að vera með gamla og lélega bíla sem eru stöðugt á verkstæði.“

Skapar sóknarfæri fyrir aðra

Stefán telur að vegna örrar endurnýjunar á rútum hjá ferðaþjónustufyrirtækjum geti markaðurinn fyrir notaðar rútur senn mettast. Verðið á þeim muni því lækka. Hann segir aðspurður að það geti skapað sóknarfæri fyrir nýliða á markaðnum.