Mikilvægt er að opna dyrnar að næststærsta hagkerfi heims

Fríverslunarsamningurinn við Kína, sem tók gildi um mánaðamótin, er fagnaðarefni. Bæði felur hann í sér að tollur á flestallar þær vörur sem hingað eru fluttar inn frá Kína mun snarlækka, sem og hitt, sem líklega munar mest um, að tollar á fiskafurðir okkar falla niður. Með samningnum er því næststærsta hagkerfi heimsins opnað upp á gátt fyrir viðskiptum við Íslendinga. Fyrirséð er því að samningurinn geti komið báðum ríkjum til góða. Jafnframt opnar hann enn frekar dyr að auknu samstarfi við Kínverja í ýmsum málaflokkum, eins og til dæmis orkumálum og nýtingu jarðhita.

Oft er ástæða til að hafa varann á í samskiptum við stór og öflug ríki, sér í lagi þegar stóra ríkið deilir ekki með okkur viðhorfum til frjálslyndis og lýðræðis. Þrátt fyrir að í fríverslunarsamningnum felist mikilvæg tækifæri, má þess vegna ekki loka augunum fyrir því að stjórnarfar í Kína er ekki byggt á þeim grunni sem Vesturlönd hafa haft í heiðri, og að staða mannréttinda þar er afar bágborin. Þess vegna er ástæða til að viðhafa eðlilega varkárni í samskiptunum, þó að viðskiptin við Kína verði meiri. Í þessu sambandi má nefna áhuga Kína á málefnum norðurslóða og risastórum íslenskum jörðum.

Ítreka ber þó, að kostirnir við fríverslun eru mun fleiri en mögulegir gallar. Samningurinn sem nú hefur tekið gildi ber því vitni, að fyrir fullvalda þjóð sem treystir jafnmikið á inn- og útflutning og við gerum getur það skipt verulegu máli hvaða samningar eru gerðir og við hverja. Fríverslunarsamningurinn við Kínverja nú er einungis einn af fjölmörgum sem íslenska lýðveldið hefur gert við aðrar þjóðir í krafti fullveldisins.

Á sama tíma er landið enn umsóknarríki að tollabandalagi, þar sem rétturinn til þess að gera slíka samninga er ekki lengur hjá ríkjunum sjálfum, heldur er falinn kommisörum bandalagsins. Þeir fríverslunarsamningar sem taka myndu gildi hér við inngönguna í Evrópusambandið myndu taka mest mið af hagsmunum ESB, eins og þeir eru skilgreindir af þeim sem ráða þar mestu, en ekki hagsmunum einstakra aðildarríkja. Er hætt við því að ávinningur Íslands af því tollaumhverfi yrði mun minni en kostnaðurinn við það, að varpa öllum núgildandi samningum landsins fyrir róða.