Einn góðan sumardag fyrir um áratug varð Víkverji fyrir nokkrum vonbrigðum á fótboltavellinum.

Einn góðan sumardag fyrir um áratug varð Víkverji fyrir nokkrum vonbrigðum á fótboltavellinum. Vonbrigðin stöfuðu þó ekki af úrslitunum á vellinum heldur af því að Skagamenn, sem voru að fara að mæta Vesturbæingum, gengu út á KR-völlinn í hvítum stuttbuxum. Þessi lið höfðu þá háð margar frægar rimmur án þess að nokkur maður ruglaðist á stórveldunum tveimur á velli. Sem betur fer entist sú tilraun í búningamálum ekki lengi og næst þegar liðin mættust fengu þau bæði að vera í sínum hefðbundnu svörtu stuttbuxum án þess að heimurinn færist.

Þetta er rifjað upp í ljósi þess að á HM hefur alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA sett alls kyns reglur um búninga og útbúnað leikmanna, svo mjög að keyrir um þverbak. Mörg liðanna skarta nú til dæmis einlitum búningum, þar sem FIFA sendi þau tilmæli, sem ekki allir fylgdu, að það ætti helst að vera einn litur í búningunum. Þjóðverjar og Argentínumenn leika því ekki í svörtum stuttbuxum eins og venjulega heldur hvítum og engu var líkara en Ítalir og Englendingar hefðu ruglast á stuttbuxunum sínum. Og það er ekki nóg að eyðileggja skuli sögufræga búninga með reglugerðafarganinu. Sérstaklega galnar reglur gilda um notkun þeirra. Þannig máttu alrauðir Spánverjar ekki mæta albláum Hollendingum í riðlakeppninni, þar sem rauður og blár eru skilgreindir sem dökkir litir, og þurftu Spánverjar því að skipta í hvítt. Víkverji hlakkar til að mæta á næsta leik Fram og Vals.

Um helgina fréttist svo að menn hjá FIFA ætluðu sér að rannsaka nærbuxur Neymars, stjörnu Brasilíumanna, en teygjan í þeim hafði rétt gægst upp fyrir stuttbuxurnar í einum leiknum og reyndist vera skræpótt. Þetta þótti háalvarlegt mál. Víkverji getur þó ekki annað en brosað við tilhugsunina um að einhver sveittur kerfiskall sitji í Sviss og hafi áhyggjur af því að nærbuxur leikmanna séu orðnar of litríkar.