Strandveiðar Góður gangur hefur verið í strandveiðunum í sumar.
Strandveiðar Góður gangur hefur verið í strandveiðunum í sumar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Strandveiðar hafa gengið betur á flestum svæðum það sem af er sumri en á sama tíma í fyrra. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, sagði að gæftir hefðu verið prýðilegar í sumar.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Strandveiðar hafa gengið betur á flestum svæðum það sem af er sumri en á sama tíma í fyrra. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, sagði að gæftir hefðu verið prýðilegar í sumar.

„Í fyrra dugði aflinn á B-svæðinu (Strandabyggð – Grýtubakkahreppur) alveg út júní en nú lokaðist það 26. júní. Á B-svæðinu kláruðust því allar aflaheimildir og eins á A-svæðinu (Eyja- og Miklholtshrepur – Súðavíkurhreppur),“ sagði Örn. Strandveiðisjómenn á A-svæðinu eru fljótastir að ná í mánaðarskammtinn. Þeir fengu sjö veiðidaga í júní og jafnmarga veiðidaga í maí.

Ónýttar aflaheimildir flytjast á milli tímabila. Nú um mánaðamótin færðust t.d. óveidd 283 tonn, fyrningar frá maí og júní, yfir á júlí á C-svæðinu (Þingeyjarsveit – Djúpavogshreppur). Um sömu mánaðamót í fyrra voru fyrningarnar á C-svæðinu 591 tonn en miklu minna hafði fiskast þá en nú í sumar. Á D-svæði (Hornafjörður – Borgarbyggð) færðust nú 237 tonn á milli tímabila um síðustu mánaðamót en í fyrra voru 324 tonn óveidd þar í byrjun júlí. B-svæðið var 100 tonn í plús í fyrra en var nú aðeins í mínus.

Strandveiðibátum hefur fækkað frá því í fyrra. Nú hafði 601 strandveiðibátur tekið þátt í veiðum í maí og júní en í fyrra voru þeir 621. Flestir bátar veiða á A-svæðinu eða 224 bátar í sumar. Á B-svæðinu eru 134 bátar, á C-svæði eru 123 bátar og á D-svæði eru 120 bátar byrjaðir.

Afli báta á A-svæði er nú að meðaltali 599 kg í róðri en í fyrra var hann 553 kg. Á B-svæði er meðalaflinn 560 kg í róðri, 515 kg á C-svæði og 446 kg á D-svæði.