Mér leist þannig á hann sem folald að ég ákvað að gefa honum föðurnafn mitt enda undan góðri hryssu,“ sagði Brynjar Vilmundarson, ræktandi stóðhestsins Vilmundar frá Feti, sem hlýtur Sleipnisbikarinn á landsmótinu í ár. Bkarinn er veittur efsta stóðhesti með heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á landsmóti hverju sinni. Margir líta á Sleipnisbikarinn sem ein æðstu verðlaun sem hægt er að hljóta í íslenskri hrossarækt.
Vilmundur frá Feti er 13 vetra gamall og er undan Sleipnisbikarhafanum Orra frá Þúfu og Vigdísi frá Feti. Vigdís er undan Kraflari frá Miðsitju og Ásdísi frá Neðra-Ási.
Til að hljóta Sleipnisbikarinn þarf að uppfylla ákveðin skilyrði. Stóðhesturinn þarf að eiga að minnsta kosti 50 dæmd afkvæmi og að lágmarki 118 stig í aðaleinkunn kynbótamats.
Vilmundur uppfyllir þau skilyrði og gott betur en hann er með 125 stig í aðaleinkunn kynbótamats og 56 afkvæmi hans hafa hlotið fullnaðardóm.
Í Worldfeng, upprunaættbók íslenska hestsins, eru 310 afkvæmi skráð undan honum. Núverandi eigandi hans er hrossaræktarbúið Fet.
Vilmundur stóð efstur í flokki fimm vetra stóðhesta á landsmótinu 2006 með 8,95 fyrir hæfileika og í aðaleinkunn 8,56.
Á landsmóti mæta tólf afkvæmi Vilmundar með honum þar sem hann tekur á móti bikarnum. Í afkvæmahópnum er til að mynda Brigða frá Brautarholti. Hún fór í kynbótadóm á landsmótinu núna á Hellu og hlaut þar 8,58 í aðaleinkunn fyrir yfirlit, en í yfirlitinu geta hrossin hækkað.
Í aðdraganda landsmóts skapast ávallt spenna um hver hlýtur bikarinn hverju sinni. Sá stóðhestur sem varð annar var Stáli frá Kjarri. Stáli er 16 vetra gamall og 71 afkvæma hans hefur hlotið fullnaðardóm.
Í fyrra hlaut Álfur frá Selfossi Sleipnisbikarinn, þá tíu vetra gamall. Álfur var seldur úr landi. Þá hafði aldrei jafn ungur hestur hampað bikarnum síðan 1950 þegar Hreinn frá Þverá hlaut hann tíu vetra gamall, en Skuggi frá Bjarnanesi, fyrsti Sleipnisbikarhafinn, var einnig tíu vetra árið 1947 þegar hann fékk bikarinn. thorunn@mbl.is