Alan Greenspan, þáverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, lét viðvaranir Alþjóðagreiðslubankans um hættumerkin á fjármálamörkum fyrir áratug sem vind um eyru þjóta. Reynslan hefur sýnt að sú greining reyndist rétt.
Alan Greenspan, þáverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, lét viðvaranir Alþjóðagreiðslubankans um hættumerkin á fjármálamörkum fyrir áratug sem vind um eyru þjóta. Reynslan hefur sýnt að sú greining reyndist rétt. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Claire Jones í Frankfurt og Sam Fleming í London Seðlabankar hugi að stefnubreytingu og hverfi frá hinni fordæmalausu lágvaxtastefnu.

Áhrifamenn innan bandaríska seðlabankans tóku ekki mikið mark á viðvörunum Bills White, þáverandi aðalhagfræðings Alþjóðagreiðslubankans (BIS), þegar hann ávarpaði árlega ráðstefnu bankans um efnahagsmál í Jackson Hole árið 2003. White varaði við því að hnattrænt ójafnvægi í alþjóðaviðskiptum gæti ógnað stöðugleika fjármálakerfisins.

Árin eftir ráðstefnuna ráðlögðu White og Claudio Borio, eftirmaður hans hjá BIS, seðlabönkum að hækka vexti til að afstýra hættunni á fjármálakreppu. Í stað þess að fara eftir þeim ráðum reyndu seðlabankastjórar í staðinn að styðja við hagvöxt með því að halda vöxtum lágum.

Varnaðarorðin urðu hins vegar að veruleika fimm árum eftir að þau voru fyrst látin falla þegar fjármálakreppan skall á með fullum þunga þegar fjárfestingabankinn Lehman Brothers varð gjaldþrota.

Svipaður tónn er nú sleginn í ársriti BIS sem kom út á sunnudaginn. Þar kemur meðal annars fram að tímabært sé að seðlabankar hugi að stefnubreytingu og hverfi frá hinni fordæmalausu lágvaxtastefnu sem hefur verið fylgt í stjórn í peningamála eftir að fjármálakreppan skall á. „Ekki má vanmeta hættuna sem getur skapast ef peningamálastefnan færist of hægt og of seint í eðlilegt horf,“ segir í ritinu.

Þrýstingur frá stjórnmálamönnum og ótti við viðbrögð markaða geti leitt til þess að seðlabankar verði of seinir til þess að færa peningamálastefnuna í eðlilegt horf á ný. En gerist það þá gætu seðlabankar lent á milli steins og sleggju þar sem hættan á mikilli ólgu á mörkuðum við vaxtabreytingu yrði enn meiri eftir því sem lengri tími líður. Þetta skapar hættu á „hættulegum víxlverkunum sem yrði hrint af stað þegar markaðir sannfærast um að seðlabankar séu á eftir kúrvunni“.

Það er með öllu óljóst hvort seðlabankar á borð við þann bandaríska og Englandsbanki fari eftir þessum ráðum Alþjóðagreiðslubankans. BIS er stundum sagður vera seðlabanki seðlabankanna. Allir helstu seðlabankar heims eru meðal þeirra 60 seðlabanka sem eiga aðild að BIS.

Annað sjónarhorn í Basel

En greiningar BIS eru oft á öndverðum meiði við sjónarmið aðildarbankanna. BIS hefur ítrekað þá skoðun að viðbrögð seðlabanka við fjármálakreppunni – að lækka vexti niður úr öllu valdi og ráðast í bein skuldbréfakaup á markaði – kunni að leiða til annarrar fjármálakreppu ef þær haldast ekki í hendur við umbætur í ríkisfjármálum viðkomandi ríkja.

Ástæðan fyrir þessu er ólíkt sjónarhorn sérfræðinga BIS á þróun mála á fjármálamörkuðum. Undir forystu Borio, aðalhagfræðings, byggjast skoðanir bankans á greiningum á efnahagsreikningum og mikil áhersla er lögð á skoða áhrif þess hvernig aðgengi að fjármagni er hverju sinni. Þetta þýðir að bankinn horfir á hlutina út frá langtímaþróun á fjármálamörkuðum þar sem sveiflurnar standa yfir í 15-20 ár á meðan seðlabankar beina frekar sjónum að hagsveiflum sem standa að jafnaði yfir í átta ár.

Þetta felur í sér að seðlabankar bregðast of hart við skammtímabreytingum í landsframleiðslu og verðbólgu hverju sinni. Slík peningamálastefna leggur of mikla áherslu á að koma í veg fyrir niðursveiflur í stað þess að reyna að afstýra þeim vanda sem of mikil þensla kann að skapa og það leiðir til enn frekari vandamála þegar fram í sækir.

Hættumerkin sem BIS sér nú í kortunum einskorðast ekki við þróaðri hagkerfi þar sem seðlabankar hafa beitt þensluhvetjandi peningamálstefnu. Bent er á í ársritinu að fyrirtæki í fjölda nýmarkaðsríkja – þá sérstaklega í Asíu og Rómönsku Ameríku – hafi nýtt sér aðstæður á verðbréfamörkuðum til skuldsetningar í erlendri mynt gegnum tengd félög. Þessi þróun felur í sér „dulinn veikleika“ að mati BIS enda stæðu þessi fyrirtæki berskjölduð ef lánsfjárþurrð skapast á mörkuðum.

Hætta á bankakreppu í Kína

BIS hefur einnig áhyggjur af því að fjármálabólur í nokkrum nýmarkaðsríkjum gætu sprungið í fyrirsjáanlegri framtíð. Samkvæmt greiningum bankans á breytingum á aðgengi að lánsfé, skuldsetningu og þróun landsframleiðslu er til að mynda hætta á bankakreppu í Kína í fyrirsjáanlegri framtíð. Í ársritinu segir að þau ríki sem eru á síðari stigum fjármálabólu standi nú frammi fyrir tveimur valkostum: Að stíga á bremsuna núna eða eiga á hættu enn meiri niðursveiflu þegar fram í sækir.

Alan Greenspan, þáverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, lét viðvaranir BIS um hættumerkin á fjármálamörkum fyrir áratug sem vind um eyru þjóta. Ben Bernanke, eftirmaður hans, benti hins vegar á að reynsla Japans af viðvarandi lágum hagvexti og verðhjöðnun sýndi fram á að vaxtahækkanir séu ekki rétta meðalið gegn eignabólum.

Reynslan sýnir að greining BIS á hættumerkjunum árið 2003 var rétt. Hafi sérfræðingar bankans enn á ný rétt fyrir sér er ljóst að nú ríkir lognið sem kemur á undan storminum á mörkuðum.