Ævintýri Stilla úr kvikmyndinni Hross í oss. Til að undirbúa sig fyrir krefjandi og óvenjulegt hlutverkið lærði Steinn Ármann að sundríða undir leiðsögn Hermanns Árnasonar frá Vík í Mýrdal.
Ævintýri Stilla úr kvikmyndinni Hross í oss. Til að undirbúa sig fyrir krefjandi og óvenjulegt hlutverkið lærði Steinn Ármann að sundríða undir leiðsögn Hermanns Árnasonar frá Vík í Mýrdal.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinn Ármann sagði skilið við sinn síðasta hest fyrir þremur árum eftir að hafa stundað hestamennsku í tvo áratugi. Hann lýsir því sem mikilli upplifun að hafa leikið í eftirminnilegu atriði í Hross í oss þar sem hann sundríður út á fjörð.

Það var við hæfi að Steinn Ármann Magnússon fengi veigamikið hlutverk í kvikmyndinni vinsælu Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson. Steinn er einn af ástsælustu leikurum þjóðarinnar en var líka um langt skeið á bólakafi i hestamennskunni. Steinn á ekki hesta í dag, en segist þó reyna að stelast í útreiðartúra með félögum sínum úr hestaheiminum þegar færi gefst.

Steinn var kominn á fullorðinsár þegar hann eignaðist sinn fyrsta hest. „Frá því ég man eftir mér hef ég verið forvitinn um hesta, kannski vegna þess að mamma ólst upp með hestum í sveitinni og talaði oft um hvað sig langaði í hest. Hann langafi minn, sem ég er skírður í höfuðið á, Steinn Ármannsson, var líka mikill hestamaður og þótti skrítinn sá siður Steins og vinar hans Steins Steinssonar að þeir klæddu sig upp í sparifötin á sunnudögum og fóru í reiðtúr um héraðið.“

Nálægt þrítugu er Steinn Ármann vígður inn í hestamennskuna í gegnum vin sinn Viktor Heiðdal Sveinsson. „Hann dró mig og aðra úr vinahópnum nokkuð oft upp á Laxnes í Mosfellsdal þar sem við fengum lánaða hesta. Fljótlega var það orðið þannig að við fórum uppeftir í reiðtúra af minnsta tilefni. Í framhaldinu fékk ég að fara reglulega á bak hjá vini mínum í Hafnarfirði og endaði svo með að ég lét loksins verða af því að kaupa minn fyrsta hest, Draupni.“

Úr einum fjóra

Eins og vill stundum verða þegar bakterían grípur menn fjölgaði hestunum nokkuð hratt. Fyrsti hesturinn var ágætur en sá næsti, Glófesti, enn betri. „Hún var brún meri, enn í fullu fjöri og hafði fengið góða dóma fyrir hæfileika en þótti helst til löng í byggingu. Kenndi hún mér heilmikið sem hestamanni og lagaðist um leið umgengni mín við Draupni, sem hafði átt það til að vera hrekkjóttur.“

Þetta er um miðjan 10. áratuginn og þriðji hesturinn, einnig meri, bætist við, og svo folald. „En nokkru seinna fóru áföllin að dynja á. Draupnir fékk krabbamein og Glófesta heltist. Sat ég bráðlega uppi með ótaminn folann og merina og mátti varla skilja þau að. Hún var líka orðin gömul og ekki sami eldmóðurinn í henni og áður.“

Veikindi hestanna og erfiðið reyndu svo á Stein Ármann að áhuginn á hestamennskunni dvínaði smám saman. „Ég keypti mér svo hesthús í félagi við vin minn Hall Helgason, en vinnan þar lenti að stórum hluta á mér og þegar ég var búinn að viðra hestana, moka undan þeim og bera undir þá rándýrt sagið, þá varla nennti ég á bak.“

Dýrt sport

Gerði það Steini enn erfiðara að halda hestamennskunni áfram að það varð æ kostnaðarsamara að stunda sportið. „Þegar ég byrjaði var hestamennskan stunduð af ósköp venjulegu fólki, sem fór í sína reiðtúra í gömlum úlpum, gallabuxum og gúmmístígvélum. Það þótti eðlilegt að væri smáhestafýla af þessu fólki, ef ekki jafnvel ögn af vínlykt, og hesthúsin voru óttalegir hjallar. Svo er eins og hestasportið hafi tekið að breytast, ekki hægt að láta sjá sig lengur á baki nema í 50.000 króna úlpu og 30.000 króna reiðbuxum, hnakkarnir farnir að kosta á við hestinn og hesthúsin orðin glæsilegri en stássstofan á betri heimilum, með leðursófasettum og kristalslgösum. Öllu þessu fylgdi að hestamennskan varð mun dýrara sport en áður.“

Liðnir eru þrír vetur síðan Steinn Ármann sagði skilið við sinn síðasta hest. Segir hann hestleysið ekki leggjast mjög þungt á sig alla jafna þótt endrum og sinnum grípi hann sterk löngun til að fara í reiðtúr. Var það því mikið happ að fá bitastæða rullu í Hross í oss en til að undirbúa hlutverkið þurfti Steinn að verja miklum tíma á hestbaki og m.a. læra að sundríða.

„Ég hafði aldrei sundriðið áður og fór því á námskeið hjá Hermanni Árnasyni frá Vík í Mýrdal, en hann hefur m.a. unnið sér það til frægðar að hafa árið 2000 synt með stórum hópi reiðmanna öll vötn frá Hornafirði til Hveragerðis, Jökulsárlón þar með talið.“

Gefa frá sér sérstakt hljóð á sundi

Æfingarnar fóru fram í Eystri-Rangá og fékk Steinn Ármann að ríða góðum fola, aðalsundhesti Hermanns. „Sá hestur er frekar lítill, eins og ég, og ekki mikill vandi fyrir mig að ríða honum berbakt, en þegar kemur að tökunum líst kvikmyndagerðarmönnunum betur á hryssu úr eigu Hermanns, töluvert stærri skepnu, og leist mér ekki alveg á blikuna í fyrstu.“

Sundið gekk þó vel að mestu og segir Steinn að ekki sé sérlega flókið að sundríða. „Þegar hestarnir fara ofan í vatnið fylla þeir sig af lofti til að fljóta betur og anda mjög grunnt svo að hljóðið í þeim er mjög sérstakt. Hrossunum er eðlislægara en okkur fólkinu að synda og á ekki að vera erfitt að venja þau við vatnið, þótt sumir hestar séu verr syndir en aðrir.“

Reiðmaðurinn þarf, að sögn Steins, að gæta þess að gefa hestinum gott höfuðrými, með hæfilegan slaka í taumnum. „Smávægilegt óhapp varð við tökurnar og þurfti ég að bjarga hestinum þar sem hann hafði klemmst á milli skips og sérstaks pramma sem byggður hafði verið fyrir atriðið. Þegar hesturinn losnaði tók hann af stað og synti í átt að landi og þá var ekki annað í stöðunni en að synda á eftir honum.“

ai@mbl.is