Sigfús Páll Sigfússon
Sigfús Páll Sigfússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is Yfirgnæfandi líkur eru á að handknattleiksmaðurinn Sigfús Páll Sigfússon leiki með handknattleiksliðinu Wakunaga í Hírósíma í Japan á næsta vetri.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Yfirgnæfandi líkur eru á að handknattleiksmaðurinn Sigfús Páll Sigfússon leiki með handknattleiksliðinu Wakunaga í Hírósíma í Japan á næsta vetri. „Ég er búinn að leigja út íbúðina mína svo ég verð í slæmum málum ef ekki tekst að hnýta þá fáu lausu enda sem eftir eru. Um þessar mundir tel ég 95% öruggt að ég fari til Japans í haust og verði þar næsta árið, hið minnsta, vonandi lengur,“ sagði Sigfús Páll í samtali við Morgunblaðið í gær.

Gangi þetta allt saman eftir fetar Sigfús Páll í fótspor Dags Sigurðssonar, núverandi þjálfara Füchse Berlín, sem lék með Wakunaga frá 2000-2003 og var fyrsti íslenski handknattleiksmaðurinn til þess að leika með japönsku félagsliði.

Móðir Sigfúsar Páls er japönsk. Þess vegna segir hann það hafa lengi blundað í sér að flytja til Japans í einhvern tíma og læra móðurmálið.

„Ég hef lært japönsku í háskólanum en það er ekki það sama og að búa í Japan og læra málið þar. Þar af leiðandi hef ég ákveðið að láta slag standa og vonast til að þetta gangi nú eftir. Mig langar að læra japönskuna í eitt skipti fyrir öll,“ segir Sigfús Páll sem flytur utan ásamt konu sinni og ungu barni ef til kemur. „Ef maður gerir þetta ekki núna þá held ég að maður komi þessu ekki verk þegar fram líða stundir.“

Fékk góð ráð frá Degi

Sigfús Páll fór til Japans fyrir mánuði og kynnti sér aðstæður í Hírósíma og æfði með Wakunaga en auk þess mun hann vinna hjá fyrirtæki sem rekur félagið, gangi allt upp. „Ég hef talað við Dag og fengið mörg góð ráð auk þess sem hann hefur sagt mér undan og ofan af lífinu í Japan. Ég fór á nokkrar æfingar með liðinu og leist vel,“ segir Sigfús Páll.

Tíu lið leika í atvinnumannadeildinni í Japan að sögn Sigfúsar Páls. Að deildarkeppninni lokinni tekur við úrslitakeppni. Auk þess eru tvö hraðmót, ekki ósvipuð deildabikarkeppninni hér á landi yfir keppnistímabilið.

Keppnistímabilið stendur yfir frá október og fram í mars.

„Ég held að handboltinn sem er leikinn í Japan sé allt í lagi. Hann er eitthvað lakari en hér á landi,“ sagði Sigfús Páll og bætti við: „Ef þetta gengur ekki upp þá leik ég með Fram á næsta keppnistímabili.“