Þór Hauksson hætti sem framkvæmdastjóri Burðaráss fyrir skemmstu og er 23% hlutur félagsins í spænska lyfjafyrirtækinu Invent Farma nú til sölu.
Þór Hauksson hætti sem framkvæmdastjóri Burðaráss fyrir skemmstu og er 23% hlutur félagsins í spænska lyfjafyrirtækinu Invent Farma nú til sölu. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Hörður Ægisson hordur@mbl.is Burðarás skoðar sölu á 23% hlut í Invent Farma sem er metinn á um 4 milljarða. Þór Hauksson hættur sem framkvæmdastjóri.

Framtakssjóðurinn Burðarás, sem var stofnaður af Straumi fjárfestingabanka á síðasta ári, undirbýr nú sölu á 23% eignarhlut sínum í spænska samheitalyfjafyrirtækinu Invent Farma. Aðeins tíu mánuðir eru síðan Burðarás og Framtakssjóður Íslands (FSÍ) gengu í sameiningu frá kaupum á um 61% hlut í Invent Farma fyrir samtals um tíu milljarða króna.

Þór Hauksson hefur jafnframt hætt sem framkvæmdastjóri Burðaráss. Hann tók við starfinu í ársbyrjun 2013 eftir að hafa áður verið fjárfestingastjóri FSÍ. Ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar en Þór hefur átt sæti í stjórn Invent Farma.

Jakob Ásmundsson, forstjóri Straums, vildi ekkert tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er óvíst hvað verður um starfsemi Burðaráss í framhaldinu. Við stofnun Burðaráss stóðu væntingar til þess, líkt og greint var frá í viðtali við Þór í Morgunblaðinu í júní 2013, að sjóðurinn yrði einn stærsti framtakssjóður landsins. Þau áform hafa ekki gengið eftir.

Eignarhlutur Burðaráss í Invent Farma er metinn á um fjóra milljarða króna. Voru kaup Burðaráss á hlut í lyfjafyrirtækinu sl. haust fjármögnuð nánast að öllu leyti með bankaláni, að því er heimildir Morgunblaðsins herma. Afar ólíklegt er talið að Framtakssjóður Íslands, sem fer með 38% eignarhlut í Invent Farma, vilji auka við hlut sinn í félaginu. FSÍ er í eigu stærstu lífeyrissjóða landsins og Landsbankans. Aðrir hluthafar Invent Farma eru Friðrik Steinn Kristjánsson, einn stofnenda fyrirtækisins og núverandi stjórnarformaður, með um 30% hlut en auk þess eiga erlendir starfsmenn félagsins um 15% eignarhlut.

Reksturinn gengið vel

Invent Farma var stofnað þegar íslenskir fjárfestar keyptu lyfjaverksmiðjur á Spáni árið 2005. Rekstur félagsins hefur gengið afar vel á undanförnum árum en velta þess á árinu 2012 var um 84 milljónir evra, jafnvirði um 14 milljarða króna, og EBITDA-rekstrarhagnaður nam tæplega 21 milljón evra.

Fyrirtækið er á meðal tíu stærstu samheitalyfjaframleiðenda á Spáni. Stærsta einstaka markaðssvæði Invent Farma er Spánn, en þó kemur um helmingur veltunnar vegna sölu utan Spánar. Starfsmenn eru um fjögur hundruð talsins og nema eignir félagsins um 93 milljónum evra.