Bókin Hagfræðingurinn Steven Levitt og blaðamaðurinn Stephen J. Dubner vöktu töluverða athygli með bókinni Freakanomics árið 2005.

Bókin Hagfræðingurinn Steven Levitt og blaðamaðurinn Stephen J. Dubner vöktu töluverða athygli með bókinni Freakanomics árið 2005. Þótti bókin varpa áhugaverðu og nýstárlegu ljósi, með hugsunarhætti hagfræðinnar, á ýmsa þætti mannlegs lífs og mannlegs eðlis. Með því að kafa í gagnasöfn sýndu þeir m.a. fram á útbreidda hefð fyrir svindli meðal súmóglímumanna í Japan og sýndu einnig hvernig þau nöfn sem börnum eru gefin geta mótað framtíð þeirra.

Í maí kom svo frá þeim bókin Think Like a Freak og situr ofarlega á metsölulistum vestanhafs um þessar mundir.

Í þetta skiptið reyna höfundarnir að kenna lesandanum að breyta hjá sér hugsunarhættinum til hins betra – hugsa eins og þeir!

Er erfitt að sjóða niður í nokkrar setningar boðskapinn í bók með jafn göfugan og margbrotinn tilgang, en í gegnum nokkrar sögur og dæmi er lesandinn varaður við algengum hugarfarsgildrum sem okkur hættir öllum til að festast í.

Þetta eru gildrur eins og að þora ekki að viðurkenna eigið þekkingarleysi og láta hleypidóma og siðferðiskennd koma í veg fyrir að við finnum frumlegu lausnirnar á vandamálunum.

Bókin tæpir einnig á því hvernig best er að virkja fólkið í kringum okkur, án þess að reyna að leika á fólk og blekkja. Notast höfundarnir þar við sögu af góðum árangri góðgerðarfélagsins Smile Train, sem tókst að laða til sín fleiri styrkveitendur með því að lofa að abbast ekki upp á þá aftur með beiðnum um fleiri peningagjafir. Kom í ljós að það borgaði sig að koma hreint og beint fram frekar en að jagast í fólki endalaust. ai@mbl.is