Guðmundur Arason
Guðmundur Arason
Mánaðargreiðsla fyrir öryggishnappa hefur hækkað um 89% eftir að niðurgreiðslur Sjúkratrygginga lækkuðu með nýrri reglugerð 1. apríl sl. Kostar hnappurinn nú 2.550 kr. á mánuði en kostaði áður 1.350 kr.

Mánaðargreiðsla fyrir öryggishnappa hefur hækkað um 89% eftir að niðurgreiðslur Sjúkratrygginga lækkuðu með nýrri reglugerð 1. apríl sl. Kostar hnappurinn nú 2.550 kr. á mánuði en kostaði áður 1.350 kr.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir breytinguna koma sér illa. „Afar slæmt er að lækka niðurgreiðslur sem eldri borgarar fá í gegnum Sjúkratryggingar. Við mótmæltum breytingunum á fundi með Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra og sagðist hann ætla að endurskoða reglugerðina á fundinum.“

Þá segir Jóna að stefna yfirvalda sé að gera fólki kleift að vera heima fyrir í sem lengstan tíma og telur hún breytinguna ekki ríma vel við þá stefnu, enda veiti hnappurinn fólki öryggi.

Guðmundur Arason, forstjóri Securitas, segir að þeir hafi hækkað gjaldið á öryggishnöppunum vegna lægri fjárframlaga frá Sjúkratryggingum. „Niðurgreiðslan lækkaði um 1.200 krónur 1. apríl og í ljósi þess höfum við ákveðið að hækka gjaldið fyrir öryggishnappinn sem því nemur. Okkur þykir leiðinlegt að þurfa að hækka verðið en við sjáum okkur ekki fært að taka hækkunina á okkur,“ segir Guðmundur.

Öryggishnappurinn
» Með öryggishnappinum er hægt að senda út neyðarkall ef ýtt er á hann. Hann er vinsælt tæki hjá eldri borgurum sem búa heima.
» Í aprílbyrjun tók í gildi reglugerðarbreyting sem lækkar niðurgreiðslur Sjúkratrygginga vegna öryggishnappsins. Hækkaði þá verðið úr 1.350 krónum á mánuði í 2.550 krónur, eða um nærri 90%.