Raftónlist Árni Teitur, forsprakki Worm is Green, segir plötuna To Them We Are Only Shadows vera poppaðri en fyrri plötur sveitarinnar.
Raftónlist Árni Teitur, forsprakki Worm is Green, segir plötuna To Them We Are Only Shadows vera poppaðri en fyrri plötur sveitarinnar.
Davíð Már Stefánsson davidmar@mbl.is Raftónlistarbandið Worm is Green gefur á sunnudaginn út sína fjórðu plötu en um er að ræða breiðskífuna To Them We Are Only Shadows .

Davíð Már Stefánsson

davidmar@mbl.is

Raftónlistarbandið Worm is Green gefur á sunnudaginn út sína fjórðu plötu en um er að ræða breiðskífuna To Them We Are Only Shadows . Forsprakki sveitarinnar, Árni Teitur Ásgeirsson, segir plötuna talsvert frábrugðna því sem hefur áður heyrst frá bandinu.

„Á fyrstu plötunni var til að mynda lítið sungið en á þessari er sungið í öllum lögum. Tónlistin hefur ef til vill þróast yfir í aðeins poppaðri stíl án þess þó að missa rafgildið,“ segir hann. Þrátt fyrir drungalegan titil plötunnar segir Árni Teitur yfirbragðið á henni vera nokkuð létt.

„Síðasta plata, sem bar einmitt titilinn Glow , var heldur dimmari. Það eru því svona ákveðnar andstæður í þessu. Ég myndi segja að nýjasta platan væri okkar poppaðasta til þessa,“ segir hann.

Bristol-áhrifa gætir

Sveitin var stofnuð árið 2002 en fyrsta breiðskífa hennar, Automagic , kom einmitt út sama ár. Árni Teitur segir áhrifin koma úr mörgum áttum þegar blaðamaður líkir tónlist sveitarinnar við Bristol-senuna svokölluðu.

„Maður sogar bara allt í sig og byrjar síðan að skapa. Portishead, ásamt allri Bristol-senunni, er náttúrlega hljómsveit sem allir sem hafa áhuga á þessari gerð af tónlist hlusta á,“ segir hann og nefnir þar Massive Attack og Tricky máli sínu til stuðnings. Árni Teitur segir sveitina hafa breyst talsvert frá því hún steig fyrst fram á sjónarsviðið og að tölvan hafi að stórum hluta tekið yfir hljóðfæraleik.

„Í upphafi vorum við með lifandi trommuleik, bassa og þess háttar. Núna vinn ég eiginlega lögin bara einn og sendi á söngkonu sveitarinnar, Guðríði Ringsted, og hún tekur upp sönginn og sendir mér til baka,“ segir hann en þess má geta að aðrir meðlimir sveitarinnar eru þeir Bjarni Þór Hannesson og Þorsteinn Hannesson.

Útgáfufyrirtæki frá Japan

To Them We Are Only Shadows verður eingöngu gefin út á rafrænu formi en Árni Teitur segir reynsluna af því vera einkar góða en sama snið var á þriðju plötunni, Glow .

„Við vildum sjá um þetta sjálf. Það er nóg að gera alls staðar og við höfum eiginlega bara ekki tíma eða afl til þess að fylgja geisladiski eftir í dreifingu. Það kom reyndar útgáfufyrirtæki frá Japan að Glow eftir að við höfðum gefið hana út rafrænt og gerði disk í kjölfarið,“ segir hann en hægt verður að nálgast plötuna á öllum helstu rafmiðlum. Árni Teitur fluttist til Noregs fyrir ári og segir það geta verið ströggl að hóa allri sveitinni saman.

„Í dag eru allir komnir með fjölskyldu og fasta vinnu. Við erum náttúrlega orðin aðeins eldri en þegar við byrjuðum, tíminn líður víst. Við spilum sjaldnar en reynum að gera það við sérstök tækifæri. Við fórum til að mynda í tónleikaferðalag til Kína fyrir ári. Okkur finnst hinsvegar gaman að gefa út plötur og höldum því örugglega áfram að eilífu,“ segir hann.

Spilað út um allan heim

Sveitin hefur leikið víða um lönd og meðal annars drepið niður fæti í Austur-Evrópu, Ameríku og Asíu og segir Árni Teitur sveitina hafa spilað jafnmikið erlendis og á Íslandi, ef ekki meira.

„Við höfum spilað frekar víða, fórum meðal annars í þrjár tónleikaferðir til Bandaríkjanna á sínum tíma. Síðan höfum við til að mynda spilað í Eistlandi, Póllandi, Tékklandi og Danmörku,“ segir hann.

„Söngkona sveitarinnar er ófrísk og á að eiga núna í haust þannig að það verður kannski ekki mikið tónleikahald í beinu framhaldi af plötunni,“ segir Árni Teitur að lokum.