Markaskorarar Fylkismaðurinn Kristján Valdimarsson og Christopher Tsonis Fjölni voru báðir meðal markaskorara í Grafarvoginum í gærkvöld.
Markaskorarar Fylkismaðurinn Kristján Valdimarsson og Christopher Tsonis Fjölni voru báðir meðal markaskorara í Grafarvoginum í gærkvöld. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Grafarvogi Þorkell Gunnar Sigurbjörnss. thorkell@mbl.is Frammistaða Fylkis í fyrri hálfleik gegn Fjölni í kuldanum í Grafarvogi í gær var afar döpur. Fjölnir spilaði hins vegar ágætlega í fyrri hálfleik og hafði sanngjarna 2:0 forystu í hálfleik.

Í Grafarvogi

Þorkell Gunnar Sigurbjörnss.

thorkell@mbl.is

Frammistaða Fylkis í fyrri hálfleik gegn Fjölni í kuldanum í Grafarvogi í gær var afar döpur. Fjölnir spilaði hins vegar ágætlega í fyrri hálfleik og hafði sanngjarna 2:0 forystu í hálfleik. Það er samt í raun ótrúlegt að eftir 4:2 tap Fylkis gegn Keflavík í síðustu umferð hafi þurft dapra frammistöðu í fyrri hálfleik gegn Fjölni að auki til að vekja menn til lífsins.

Það var nefnilega allt annað að sjá baráttuna og grimmdina í Fylki í síðari hálfleik og Fjölnismenn nálguðust leikinn eftir hlé líka frekar vitlaust. Í stað þess að halda boltanum virtist Fjölnir leyfa gestunum að stýra leiknum sem varð líka til þess að mörkunum rigndi inn hjá Fylki. Meira að segja Kristján Valdimarsson sem hafði ekki skorað í sex ár náði að koma boltanum í net Fjölnismanna.

Heyrði að 20 sek. væru eftir

En til að fullkomna leikinn ákvað Illugi Þór Gunnarsson, varamaður Fjölnismanna, að taka leikinn í sínar hendur þegar hann heyrði Gunnar Jarl Jónsson, góðan dómara leiksins, segja að 20 sekúndur væru eftir af leiknum, þegar vel var liðið af uppbótartíma. Illugi lét vaða með bylmingsskoti á mark Fylkis af um 30 metra færi og jafnaði metin í 3:3 með þessu líka fallega marki úr skoti sem reyndist síðasta spyrna leiksins.

Það er ekki hægt að segja annað en að Fjölnir hafi farið illa að ráði sínu í gær. Liðið hefur ekki unnið leik í Pepsi-deildinni síðan í 2. umferð, en stig úr leiknum í gær telst þó vissulega mikilvægt í stigasöfnun nýliðanna. Fjölnir hefur nú 11 stig í deildinni, en Fylkir komst í 8 stig við jafnteflið í gær. Það má segja að áhorfendur hafi fengið að sjá verstu og bestu hliðar Fylkis í Grafarvoginum í gær. Liðið nær ekki langt með spilamennsku eins og í fyrri hálfleik, en er til alls líklegt eins og spilamennskan var í seinni hálfleiknum.

1:0 Christopher Tsonis 18. Fékk frábæra stungusendingu frá Ragnari Leóssyni og afgreiddi boltann í netið einn á móti markverði.

2:0 Gunnar Már Guðmundsson 44. Skoraði með fallegu bogaskoti rétt utan teigs.

2:1 Stefán Ragnar Guðlaugsson 67. Skoraði með þrumuskoti inni í vítateig Fjölnis eftir að Fjölni mistókst að hreinsa frá marki.

2:2 Kristján Valdimarsson 69. Skoraði með skalla af stuttu færi í teignum.

2:3 Andrew Sousa 84. Skoraði með skalla á markateig eftir frábæra sendingu Stefáns Ragnars.

3:3 Illugi Þór Gunnarsson 90. Þrumaði boltanum inn af um 30 metra færi úr síðustu spyrnu leiksins.

Gul spjöld:

Ragnar (Fylki) 26. (brot).

Rauð spjöld:

Engin.

M

Þórður Ingason (Fjölni)

Ragnar Leósson (Fjölni)

Aron Sigurðsson (Fjölni)

Christopher Tsonis (Fjölni)

Gunnar Már Guðmundsson (Fjölni)

Gunnar Örn Jónsson (Fylki)

Andrés Már Jóhannesson (Fylki)

Ásgeir Örn Arnþósson (Fylki)

Stefán Ragnar Guðlaugsson (Fylki)

Andres Sousa (Fylki)

Fjölnir – Fylkir 3:3

Fjölnisvöllur, Pepsi-deild karla, 10. umferð, miðvikudag 2. júlí 2014.

Skilyrði : Kalt og dimmt yfir, en völlurinn í fínu standi.

Skot : Fjölnir 8 (5) – Fylkir 14 (9).

Horn : Fjölnir 3 – Fylkir 9.

Fjölnir : (4-3-3) Mark : Þórður Ingason. Vörn : Árni Kristinn Gunnarsson, Bergsveinn Ólafsson, Haukur Lárusson, Matthew Ratajczak. Miðja : Guðmundur Böðvar Guðjónsson (Viðar Ari Jónsson 75.), Ragnar Leósson (Einar Karl Ingvarsson 85.), Gunnar Már Guðmundsson. Sókn : Aron Sigurðarson (Illugi Þór Gunnarsson 56.), Christopher Tsonis, Guðmundur Karl Guðmundsson.

Fylkir : (4-3-3) Mark : Bjarni Þórður Halldórsson. Vörn : Stefán Ragnar Guðlaugsson, Kristján Valdimarsson, Ásgeir Eyþórsson, Tómas Þorsteinsson. Miðja : Daði Ólafsson, Elís Rafn Björnsson, Ragnar Bragi Sveinsson (Andrew Sousa 62.). Sókn : Ásgeir Örn Arnþórsson, Andrés Már Jóhannesson (Hákon Ingi Jónsson 87.), Gunnar Örn Jónsson (Sadmir Zekovic 81.).

Dómari : Gunnar Jarl Jónsson – 9.

Áhorfendur : 503.