Börn Gríðarlegur fjöldi fólks, eða fleiri en 1,5 milljónir manna, er nú á flótta frá Suður-Súdan, vegna hræðilegra aðstæðna. Þar af er helmingurinn börn. Viðbragðsteymi UNICEF vinna nú að því að veita börnum aðhlynningu.
Börn Gríðarlegur fjöldi fólks, eða fleiri en 1,5 milljónir manna, er nú á flótta frá Suður-Súdan, vegna hræðilegra aðstæðna. Þar af er helmingurinn börn. Viðbragðsteymi UNICEF vinna nú að því að veita börnum aðhlynningu. — Ljósmynd/UNICEF
Ingileif Friðriksdóttir if@mbl.is Styrktartónleikar á vegum UNICEF verða haldnir í Hörpu í kvöld og hefjast klukkan 21.

Ingileif Friðriksdóttir

if@mbl.is

Styrktartónleikar á vegum UNICEF verða haldnir í Hörpu í kvöld og hefjast klukkan 21. Tónleikarnir eru til styrktar börnum í Suður-Súdan, en þar ríkir gríðarlegt neyðarástand, og hefur UNICEF lýst yfir hæsta neyðarstigi á svæðinu. Tónleikarnir eru liður í neyðarsöfnun sem samtökin á Íslandi hófu nýlega og mun hver einasta króna af miðasölu renna óskipt til UNICEF. Lyfjafyrirtækið Alvogen stendur straum af tónleikunum og sér auk þess um framkvæmd þeirra. Á tónleikunum munu hljómsveitirnar Hjaltalín og Kaleo koma fram auk Páls Óskars og Snorra Helgasonar. Miðaverð er 4.500 krónur og stendur miðasala yfir á Midi.is.

Aðstæður gríðarlega erfiðar

Ástandið í Suður-Súdan hefur versnað hratt eftir að blóðug átök brutust út í landinu í desember á síðasta ári. Landið stóð á veikum grunni fyrir og mikil fátækt ríkti en nú hefur ástandið versnað enn frekar. Fleiri en 1,5 milljónir manna eru nú á flótta, þar af helmingurinn börn.

Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, sinnir nú hjálparstarfi í Suður-Súdan og segir ástandið slæmt. „Þetta er komið langt yfir hættumörk og það eru mörg vannærð börn í landinu. Það er augljóst að stríðið hefur haft gríðarleg áhrif,“ segir Stefán, en hann hefur nú verið í landinu í viku. Stefán segir stærsta vandamálið vera næringarástand. „Við erum aðallega að einblína á næringarástand. Síðastliðna viku höfum við náð til um 20% þeirra sem við teljum okkur geta náð til, en við stefnum að því að ná til 75%.“

Veita börnum aðhlynningu

Viðbragðsteymi UNICEF hafa farið um landið á undanförnum vikum, fundið út hvar flóttafólk heldur til og veitt börnum aðhlynningu og meðferð. Að sögn Stefáns hafa teymin sett upp tvenns konar næringarstöðvar; annars vegar þar sem foreldrar mæta með börn sín einu sinni í viku, og hins vegar þar sem fólk með stærri vandamál og sjúkdóma er lagt inn. Stefán segir gott að sjá hve mikil áhrif hægt er að hafa. „Þetta er mjög átakanlegt að horfa upp á, en það er gaman að sjá hversu mikil áhrif við getum haft.“