Ingileif Friðriksdóttir
if@mbl.is
Styrktartónleikar á vegum UNICEF verða haldnir í Hörpu í kvöld og hefjast klukkan 21. Tónleikarnir eru til styrktar börnum í Suður-Súdan, en þar ríkir gríðarlegt neyðarástand, og hefur UNICEF lýst yfir hæsta neyðarstigi á svæðinu. Tónleikarnir eru liður í neyðarsöfnun sem samtökin á Íslandi hófu nýlega og mun hver einasta króna af miðasölu renna óskipt til UNICEF. Lyfjafyrirtækið Alvogen stendur straum af tónleikunum og sér auk þess um framkvæmd þeirra. Á tónleikunum munu hljómsveitirnar Hjaltalín og Kaleo koma fram auk Páls Óskars og Snorra Helgasonar. Miðaverð er 4.500 krónur og stendur miðasala yfir á Midi.is.
Aðstæður gríðarlega erfiðar
Ástandið í Suður-Súdan hefur versnað hratt eftir að blóðug átök brutust út í landinu í desember á síðasta ári. Landið stóð á veikum grunni fyrir og mikil fátækt ríkti en nú hefur ástandið versnað enn frekar. Fleiri en 1,5 milljónir manna eru nú á flótta, þar af helmingurinn börn.Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, sinnir nú hjálparstarfi í Suður-Súdan og segir ástandið slæmt. „Þetta er komið langt yfir hættumörk og það eru mörg vannærð börn í landinu. Það er augljóst að stríðið hefur haft gríðarleg áhrif,“ segir Stefán, en hann hefur nú verið í landinu í viku. Stefán segir stærsta vandamálið vera næringarástand. „Við erum aðallega að einblína á næringarástand. Síðastliðna viku höfum við náð til um 20% þeirra sem við teljum okkur geta náð til, en við stefnum að því að ná til 75%.“