Grundarfjörður Kristina EA kom til hafnar í gærkvöld. Þyrla LHG flaug vestur með slökkviliðsmenn og dælur.
Grundarfjörður Kristina EA kom til hafnar í gærkvöld. Þyrla LHG flaug vestur með slökkviliðsmenn og dælur. — Morgunblaðið/Gunnar Kristjánsson
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Frystitogarinn Kristina EA 410, stærsta skip íslenska fiskiskipaflotans, losnaði af sjálfsdáðum klukkan 20.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Frystitogarinn Kristina EA 410, stærsta skip íslenska fiskiskipaflotans, losnaði af sjálfsdáðum klukkan 20.40 í gærkvöld eftir að skipið hafði tekið niðri á Transaboða, sem er vestan við Selsker, um sjö sjómílur (13 km) frá Grundarfirði. Þar sat skipið fast. Veður var gott.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst beiðni um aðstoð frá Kristinu EA vegna óhappsins klukkan 18.30. Björgunarsveitir á norðanverðu Snæfellsnesi voru strax ræstar út. Varðskipið Þór, sem statt var við Vestmannaeyjar, hélt á strandstað.

Einar Þór Strand, formaður svæðisstjórnar björgunarsveitanna á Snæfellsnesi, sagði að 50-60 manns úr björgunarsveitum og þremur slökkviliðum hefðu komið að björgunaraðgerðum á fjórum björgunarskipum. Lítils háttar leki kom að rými fyrir fiskileitartæki. Tvær litlar dælur höfðu vel undan lekanum, að sögn Einars. Kristina EA hélt til Grundarfjarðar þar sem kafari átti að kanna skemmdirnar.

Um borð í Kristinu EA var 32 manna áhöfn. Enginn meiddist við óhappið, að sögn Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja sem á skipið. Töluvert mikill frystur afli var um borð.