Frábær Kristján Gauti Emilsson átti frábæran leik fyrir FH í gær en hann skoraði beint úr aukaspyrnu, í stöng og inn þegar FH gerði jafntefli ytra.
Frábær Kristján Gauti Emilsson átti frábæran leik fyrir FH í gær en hann skoraði beint úr aukaspyrnu, í stöng og inn þegar FH gerði jafntefli ytra. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Evrópudeild Pétur Hreinsson peturhreins@mbl.is FH-ingar fengu fín úrslit í gærdag þegar liðið gerði 1:1 jafntefli við hvítrússneska liðið Neman Grodno í 2. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu en leikið var ytra.

Evrópudeild

Pétur Hreinsson

peturhreins@mbl.is

FH-ingar fengu fín úrslit í gærdag þegar liðið gerði 1:1 jafntefli við hvítrússneska liðið Neman Grodno í 2. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu en leikið var ytra.

FH-ingar drógust í þriðja skiptið á sjö árum gegn liði frá Hvíta-Rússlandi og vissu því að nokkuð strangt ferðalag biði þeirra en þeir flugu frá Íslandi til Kaupmannahafnar þaðan sem þeir fóru til Póllands og gistu eina nótt. Frá Póllandi var svo haldið í rútu yfir til Hvíta-Rússlands.

Leikurinn var rólegur til að byrja með sem hentaði FH-ingum vel enda mikilvægt að halda markinu hreinu í einvígi sem þessu. FH-vörnin hélt vel og heilt yfir virkaði liðið sterkara en Neman Grodno. Besta færi fyrri hálfleiksins fékk fyrirliði FH-inga Ólafur Páll Snorrason rétt fyrir hálfleik en skot hans fór rétt fram hjá markinu.

FH-ingar komu sterkir út í síðari hálfleikinn og lítið benti til þess að heimamenn myndu skora. Besti maður vallarins í gær var Kristján Gauti Emilsson. Hann átti frábæran leik í framlínu FH-inga og fór tiltölulega auðveldlega fram hjá varnarmönnum Neman, trekk í trekk. Hann skoraði líka algjörlega frábært mark beint úr aukaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Atla Guðnasyni sem einnig var líflegur.

Rauða spjaldið vendipunktur

Þegar 25 mínútur voru eftir af leiknum fékk nýjasti leikmaður FH-liðsins, í sínum fyrsta leik fyrir félagið, Belginn Jonathan Hendrickx rautt spjald og vítaspyrna var dæmd. Það má deila um þessa ákvörðun dómarans en gult spjald og víti hefði átt að nægja að mínum dómi. Þetta atvik reyndist vera vendipunktur í leiknum því einum fleiri settu Hvítrússarnir í annar gír. Þeir sóttu nokkuð stíft á FH það sem eftir lifði leiks en Hafnfirðingar héldu út og hefðu raunar getað stolið sigrinum en þeir áttu nokkrar skyndisóknir sem fólust í einleik Kristjáns Gauta.

Möguleikar FH fyrir síðari viðureign liðanna verða að teljast afar góðir. Þeir spiluðu mun betur en Hvítrússarnir þegar jafnt var í liðum og áttu jafnteflið sannarlega skilið. Sér í lagi þegar ferðalag liðsins er haft í huga. Liðin munu mætast aftur í Kaplakrika eftir viku og þar er ekkert annað í boði en hafnfirskur Evrópusigur. FH er einfaldlega klassa fyrir ofan þetta lið.

1:0 Kristján Gauti Emilsson 55. Glæsilegt aukaspyrna Kristjáns við vítateisghornið fór í fjærhornið, í stöng og inn.

1:1. Pavel Savitski 66. Skoraði úr vítaspyrnu sem hann vann sjálfur eftir að Jonathan Hendrickx braut á honum.

Gul spjöld:

Savitski (Neman) 9. (brot), Legtsjilin (Neman) 36. (brot), Ribak (Neman) 54. (brot), Jón Ragnar (FH) 90. (brot).

Rauð spjöld:

Hendrickx (FH) 65. (brot).

Neman Grodno – FH 1:1

Grodno, Evrópudeild UEFA, 2. umferð, fyrri leikur, fimmtudag 17. júlí 2014.

Skilyrði : Fínt veður, sólin gengin til viðar, 21 stigs hiti og létt gola.

Skot : Neman 3 (3) – FH 8 (4).

Horn : Neman 4 – FH 3.

Neman Grodno: (4-4-2) Mark: Marius Rapalis Vörn: Dmitri Rovnejko (Vladimir Veselinov 69.), Pavel Ribak, Artem Rakhmanov, Maksim Vitus Miðja: Dmitri Rekish (Jegor Zubovitsj 76.), Igors Tarasovs, Aleksei Legtsjilin, Pavel Svaitski. Sókn: Ivan Denisevitsj, Jegor Zubovitsj.

FH: (4-3-3) Mark: Róbert Örn Óskarsson Vörn: Jón Ragnar Jónsson, Pétur Viðarsson, Kassim Doumbia, Jonathan Hendrickx Miðja: Hólmar Örn Rúnarsson (Emil Pálsson 84.), Sam Hewson (Sean Reynolds 70.), Davíð Þór Viðarsson. Sókn: Ólafur Páll Snorrason, Kristján Gauti Emilsson, Atli Guðnason (Ingimundur Níels Óskarsson 82.).

Dómari : Bardhyl Pasaj – Albaníu.

Áhorfendur : Ekki gefið upp.