Svanhildur Þórisdóttir fæddist 4. júlí 1929. Hún lést 7. júlí 2014. Útför Svanhildar fór fram 15. júlí 2014.

Þær tínast nú óðum bestu gömlu skólasysturnar frá Húsmæðraskólanum á Laugum. Að sjálfsögðu kynntust þær mismikið og kynnin entust mislengi eftir skólaveruna. Fyrstu kynni okkar Svönu man ég vel, við sátum við gluggann í setustofu skólans við hannyrðir og horfðum á dreng úr sveitinni aka traktor hring eftir hring, kringum tjörnina. Síðast valt traktorinn og drengurinn slasaðist og missti sjón að mig minnir. Þetta atvik hafði sterk áhrif á okkur báðar.

Svana bjó lengst af í Hrafnagilsstræti 12 á Akureyri með sinni fjölskyldu. Þangað var gott að koma í spjall. Við vorum báðar sveitastelpur og náttúrubörn og gátu samtölin verið um allt frá fuglalífinu við Vestmannsvatn til eilífðarmálanna, svo margt bar á góma. Blómaræktin var hennar áhugamál og að hlúa að öllum veikum gróðri hverrar gerðar sem hann var.

Ég saknaði þess síðustu árin þegar ég kom norður að ná ekki lengur sambandi við hana. Minnissjúkdómurinn hafði lamað hugsun hennar og athygli.

Hvað er mér svo efst í huga þegar ég kveð mína gömlu skólasystur og vinkonu? Hvað hún hafði fallega sál. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég eiginmanni, afkomendum og aðstandendum.

Kristín Guðnadóttir.