Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur mikilvægt að ráðist verði í aðgerðir til að draga úr hraðakstri á Suðurlandsvegi milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur mikilvægt að ráðist verði í aðgerðir til að draga úr hraðakstri á Suðurlandsvegi milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs. Hún leggur til aukið eftirlit og að skoðað verði hvort hraðamyndavélar séu heppilegur kostur á þessum stað. Þá leggur nefndin til að Vegagerðin skoði hvort bæta megi úr merkingum á veginum. Þetta kemur m.a. fram í skýrslu nefndarinnar um banaslys sem varð á Suðurlandsvegi við Meðallandsveg 4. ágúst 2013.

Tvær stúlkur, 15 og 16 ára, létust í slysinu. Fólk í tveimur bílum var í samfloti frá Reykjavík austur að Jökulsárlóni. Veður var ágætt og akstursaðstæður góðar. Bílarnir óku á 100-120 km/klst. hraða. Leyfilegur hámarkshraði þarna er 90 km/klst.

Vitni í hinum bílnum sögðu að skömmu fyrir slysið hefði bíllinn farið fram úr þeim á 130-140 km/klst. hraða og lent í lausamöl hægra megin í beinu framhaldi af framúrakstrinum. Ökumaðurinn reyndi að beina bílnum aftur upp á veginn en fór yfir veginn og lenti út af vinstra megin þar sem hann valt.

Stúlkurnar sem fórust voru farþegar í aftursæti bílsins og köstuðust út úr honum. Hvorug þeirra var í bílbelti. Þær létust báðar á slysstað. Ökumaður og farþegi í framsæti voru bæði í bílbelti en hlutu mikil meiðsl við slysið.

Samkvæmt orsakagreiningu í skýrslunni ók ökumaður „of hratt og missti stjórn á bifreiðinni í lausamöl eftir framúrakstur. Stúlkurnar sem létust notuðu ekki bílbelti og köstuðust út úr bifreiðinni. Þar sem slysið varð er Suðurlandsvegur mjór og engar vegaxlir á honum. Slitlagið er brotið í köntum og gróft hraun í nánasta umhverfi vegarins. Ökumaður var réttindalaus.“ gudni@mbl.is