Átök Björgunarmenn í rústum húss eftir flugskeytaárás í A-Úkraínu.
Átök Björgunarmenn í rústum húss eftir flugskeytaárás í A-Úkraínu. — AFP
Stjórnvöld í Rússlandi mótmæltu í gær hertum refsiaðgerðum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins gegn landinu vegna meintrar aðstoðar Rússa við aðskilnaðarsinnaða uppreisnarmenn í Úkraínu.

Stjórnvöld í Rússlandi mótmæltu í gær hertum refsiaðgerðum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins gegn landinu vegna meintrar aðstoðar Rússa við aðskilnaðarsinnaða uppreisnarmenn í Úkraínu.

Barack Obama Bandaríkjaforseti tilkynnti í fyrradag refsiaðgerðir sem beinast gegn rússneskum fjármálafyrirtækjum, olíufyrirtækjum og vopnaframleiðendum.

„Við ætlum ekki að sætta okkur við kúgun með hótunum og áskiljum okkur rétt til að grípa til refsiaðgerða,“ sagði í harðorðri tilkynningu frá rússneska utanríkisráðuneytinu.

Vladímír Pútín Rússlandsforseti mótmælti einnig aðgerðum Bandaríkjastjórnar og sagði þær hafa „mjög alvarlegar afleiðingar“ fyrir samskipti ríkjanna. „Ég er fullviss um að þetta skaðar langtímahagsmuni Bandaríkjanna, bandarísku þjóðarinnar,“ sagði hann.

Úkraínumenn fagna

Stjórnvöld í Úkraínu fögnuðu refsiaðgerðunum, meðal annars ákvörðun Evrópusambandsins um að stöðva fjármögnun Fjárfestingarbanka Evrópu og Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu á verkefnum í Rússlandi. Rússneska utanríkisráðuneytið sagði að Evrópusambandið hefði beygt sig undir kúgun Bandaríkjanna í málinu.

Leiðtogar Bandaríkjanna og Evrópusambandsins segja að markmiðið með aðgerðunum sé að fá Rússa til að knýja aðskilnaðarsinnana til að hætta þriggja mánaða uppreisn sem hefur kostað 600 manns lífið.

Refsiaðgerðirnar urðu til þess að tvær helstu hlutabréfavísitölur kauphallarinnar í Moskvu lækkuðu um 2,7% og 4,0%. bogi@mbl.is