Geir Andersen
Geir Andersen
Eftir Geir Andersen: "Það er engin lausn að banna sölu áfengis eða takmarka hana með höftum og miðstýringu."

Fljótlega verður að öllum líkindum frumvarp lagt fyrir á Alþingi sem snýst um að leyfa sölu á áfengi í matvöruverslunum. Breytingin er vissulega tímabær þar sem Ísland er í hópi örfárra landa í Evrópu sem leyfa ekki sölu áfengis í matvörubúðum eða almennum vínbúðum. Það er ákaflega gamaldags hugarfar að banna sölu áfengis í matvöruverslunum þar sem samfélagið hefur breyst mikið og kröfur neytenda eru aðrar en þær voru fyrir nærri hundrað árum, þegar Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins var stofnuð. Það eru þó tveir þættir við frumvarpið sem mætti endurskoða og athuga frekar. Það eru í fyrsta lagi mörkin á afgreiðslutíma sem virðist eiga að setja á sölu áfengisins og í öðru lagi ætti að skoða þann möguleika að einstaklingar geti rekið sjálfstæðar áfengisverslanir.

Takmörk á afgreiðslutíma – til hvers?

Eins og boðað er í frumvarpinu lítur út fyrir að sala á öllu áfengi verði aðeins leyfð til klukkan átta á kvöldin. En hver er þá raunverulega breytingin á sölu áfengisins í búðunum frá því sem er í ÁTVR? Nú er það svo að nokkrar verslanir ÁTVR eru nú þegar opnar til klukkan átta á kvöldin og að þessu leyti er lítið svigrúm gefið fyrir aukna þjónustu. Og þá má spyrja – til hvers er verið að setja sérstakan ramma utan um afgreiðslutíma áfengis? Einhverjir óttast að stór hluti þjóðarinnar verði ofurölvi allan sólarhringinn ef engin tímamörk eru sett á afgreiðslutíma áfengis. Svipaðar skoðanir voru uppi þegar leyfi fyrir bjór var í umræðu árið 1989, en reyndin varð önnur.

Forvarnir fram yfir höft og miðstýringu

Mikilvægt er að settar verði skýrar reglur um hverjir geti afgreitt áfengið, til þess að koma í veg fyrir sölu til fólks undir aldursmörkum. Það er engin lausn að banna sölu áfengis eða takmarka hana með höftum og miðstýringu. Eina leiðin til að koma í veg fyrir misnotkun er að auka umræður og forvarnir um áfengi og skaðsemi þess.

Höfundur er námsmaður.