Önnur heimssýn og breytt valdahlutföll bitna á gömlum bandamönnum

Yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar í Þýskalandi fór heim í gær eftir að þýsk stjórnvöld kröfðust þess að hann yrði kallaður heim. Samskipti Þjóðverja og Bandaríkjamanna eru í lægð, svo ekki sé sterkar til orða tekið, og hafa ekki verið verri síðan 2003 þegar þýsk stjórnvöld gagnrýndu Bandaríkjamenn vegna innrásarinnar í Írak.

Uppljóstranir um að Bandaríkjamenn hefðu stundað umfangsmiklar njósnir í Þýskalandi, þar á meðal hlerað farsíma Angelu Merkel kanslara, hleyptu illu blóði í Þjóðverja. Ekki bætti úr skák þegar flett var ofan af því að tveir þýskir gagnnjósnarar, annar í þýsku leyniþjónustunni, hinn í þýska varnarmálaráðuneytinu, hefðu verið á snærum CIA í Þýskalandi.

Í fréttaskeytum í gær var sagt að Barack Obama Bandaríkjaforseti og Merkel hefðu ræðst við í síma. Talsmenn Bandaríkjastjórnar létu uppskátt að þau hefðu skipst á skoðunum um samstarf í njósnamálum, en í Berlín fengust aðeins þau svör að ekki yrðu veittar upplýsingar um einkasamtöl utan hvað verulegur ágreiningur væri um starfsemi bandarískra leyniþjónusta.

Forsetar Bandaríkjanna hafa yfirleitt lagt áherslu á að rækta samskiptin við Evrópu og frá seinna stríði litið á Þjóðverja – Vestur-Þjóðverja til 1990 – sem mikilvæga bandamenn. Að einhverju leyti hefur sennilega mátt rekja þetta til mótunarára þeirra, í mismiklum mæli þó. Bill Clinton fékk til dæmis Rhodes-styrk og fór til London í nám. John F. Kennedy varði miklum tíma í Evrópu á sínum uppvaxtarárum og faðir hans, Joe Kennedy, var sendiherra í London.

Sýn Obama er líklega ekki jafn Evrópumiðuð. Obama fæddist á Hawaii, var um árabil í Indónesíu, fluttist tíu ára aftur til Hawaii og bjó þar þangað til hann fór í háskóla. Það væri því eðlilegt að Evrópa hefði minna hlutverk í huga hans heldur en Clintons, forvera hans úr röðum demókrata á forsetastóli.

Þar við bætist að valdajafnvægið í heiminum er að breytast. Evrópa hefur látið undan síga á meðan önnur ríki hafa eflst og seilst til meiri áhrifa. Þar ber fyrst að nefna Kína. Því hefur verið spáð að eftir sjö ár eða 2022 verði Kína mesta efnahagsveldi heims og landsframleiðsla orðin meiri en í Bandaríkjunum. Önnur ríki hafa einnig verið í örum vexti á meðan evrópskt efnahagslíf er í vanda og bandaríska ríkið skuldum vafið.

Það er til marks um að valdahlutföllin í heiminum séu að breytast að þessi ríki hafa nú ákveðið að stofna þróunarbanka og neyðarsjóð. Þessi ríki eru Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka og er skammstöfunin BRICS notuð um þau í ensku. Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem reyndar var við það að líða undir lok þegar efnahagshremmingarnar dundu yfir heiminn 2008, verða því ekki lengur einir um hituna.

Nýi þróunarbankinn á að hafa aðsetur í Sjanghæ og verður bankastjórinn indverskur. Kínverskir fjölmiðlar fögnuðu þessu framtaki og sögðu að vestræn ríki og stofnanir, þar sem þau réðu lögum og lofum, bæru ábyrgð á göllum hins alþjóðlega fjármálakerfis.

Dilma Rousseff, forseti Brasilíu, lagði sig fram um að lýsa yfir því að nýi bankinn yrði ekki stofnaður til höfuðs Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Christine Lagarde, yfirmaður þess síðarnefnda, lýsti yfir því að hún hlakkaði til samstarfs við nýja bankann. Tilgangurinn er hins vegar augljós.

Allt frá því að hinu alþjóðlega fjármálafyrirkomulagi var komið á, sem kennt er við Bretton Woods, hafa Vesturlönd ráðið ferðinni í efnahagsmálum heimsins. Þar voru peningarnir og þau voru lánardrottnarnir. Það er ekki að furða að hin rísandi efnahagsveldi, sem áður voru ekki aflögu fær, en eru það mun frekar nú, vilji hnekkja þessu kerfi. Bolmagn þeirra er kannski ekki orðið sambærilegt, en þeim vex ásmegin.

Það er líka eðlilegt að Obama sé frekar með hugann við þessa þróun og kippi sér síður upp við það þótt snurða hlaupi á þráðinn í samskiptunum við lönd, sem áður höfðu forgang í samskiptum.